Umtalsverð varanleg eyðing á birkiskógi
Skógrækt ríkisins telur að fyrirhuguð vegagerð milli Eiðs í Vattarfirði og Þverár í Kjálkafirði vestast í Reykhólahreppi sé tilkynningarskyld til mats á umhverfisáhrifum vegna varanlegrar eyðingar á birkiskógi. Þetta kemur fram í umsögn vegna erindis Skipulagsstofnunar varðandi hugsanlega matskyldu, en erindinu fylgdi kynning Vegagerðarinnar á fyrirhugaðri framkvæmd.
Í kynningarskýrslu Vegagerðarinnar um framkvæmdina segir meðal annars í kafla um gróðurfar:
Birkigróður er ríkjandi gróðurlendi í fjarðabotnum og mun það skerðast nokkuð. Miðað er við að áhrifasvæði vegagerðar sé að meðaltali 25 m, þ.e. svæði sem raskast. Frá Eiði að Þverá má reikna með að birki muni raskast um 80.000 fermetra við innri þverun en um 45.000 fermetra við ytri þverun í Mjóafirði.
Hér er um umtalsverða varanlega skógareyðingu að ræða, 4,5 til 8,0 ha eftir því hvor leið við þverun Mjóafjarðar verður valin, segir í umsögn Skógræktar ríkisins.
Bréf Skógræktar ríkisins til Skipulagsstofnunar má lesa hér í heild (pdf).
Kortin eru unnin úr grunni Landmælinga Íslands (lmi.is).