Tenglar

1. febrúar 2016 |

Undanþága frá lögum veitt í reglugerð

Þau áform Íslandspósts að fækka dreifingardögum á pósti í dreifbýli mæta harðri andstöðu á landsbyggðinni. Talað er um skerðingu á þjónustu og mismunun eftir búsetu. Hafa sum sveitarfélög óskað eftir fundi með forráðamönnum fyrirtækisins, önnur skora á Íslandspóst að endurskoða áform sín, sem snerta um 6.500 heimili á landsbyggðinni, eða nærri 5% allra heimila í landinu.

 

Póst- og fjarskiptastofnun (P&F) hefur lagt blessun sína yfir þessi áform og vísar þar til heimildar í nýlegri reglugerðarbreytingu innanríkisráðuneytisins. Breytingarnar munu að óbreytttu taka gildi 1. mars en málið hefur einnig komið til umræðu á Alþingi.

 

Í stað þess að bera póstinn út heim að húsi eða póstkassa alla virka daga verður hann borinn út annan hvern virkan dag. Þetta þýðir að aðra vikuna kemur pósturinn á mánudegi, miðvikudegi og föstudegi og hina vikuna á þriðjudegi og fimmtudegi. Vilji fólk fá póstsendingar fyrr getur það nálgast þær á næsta afgreiðslustað, því að Íslandspóstur ætlar eftir sem áður að keyra daglega út á land með bréf og pakka til afgreiðslustaðanna. Þá verður hægt að fá heimsendan póst gegn gjaldi sem fer eftir því hve langt þarf að aka.

 

Þetta kemur fram í ítarlegri fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag. Þar segir einnig m.a.:

 

Samkeppnishæfnin skert

 

Hver ályktunin á fætur annarri hefur komið frá sveitarfélögum um allt land, þar sem áformunum er mótmælt. Ber þessum sveitarfélögum saman um að Íslandspóstur sé með þessu að mismuna viðskiptavinum sínum og skerða samkeppnishæfni umræddra svæða. Um sé að ræða þjónustuskerðingu fyrir bæði íbúa og fyrirtæki.

 

Í bókun sveitarstjórnar Dalabyggðar er t.d. þeirri túlkun Íslandspósts mótmælt, að dreifing tvo daga vikunnar uppfylli kröfur reglugerðarinnar. Bent er m.a. á að bændur hafi pantað lyf hjá dýralækni í símatíma að morgni og fengið þau með Póstinum samdægurs. Sama gildi að hluta um sendingar frá apóteki og varahluti í búvélar. Þá séu margir áskrifendur að dagblöðum þar sem nettengingar bjóði varla upp á að lesa blöðin af tölvuskjám. Með boðaðri breytingu geti áskrifendur t.d. verið að fá dagblöð síðustu fjögurra daga á þriðjudegi.

 

Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, segir fyrirtækið reiðubúið til viðræðna við sveitarfélögin sé þess óskað, en ekki sé búið að ákveða neinn slíkan fund.

 

Reglugerð veitir undanþágu frá lögum

 

 „Grundvallaratriði í þessu öllu er að dreifikerfið verður að standa undir sér, við höfum ekki neina peninga aðra en tekjurnar sem af því fást í heild sinni,“ segir Ingimundur.

 

Í umræddri reglugerð, sem ráðuneytið breytti sl. haust, er heimild til að fækka dreifingardögum í dreifbýli ef kostnaður vegna þess verður meira en þrefaldur á við kostnaðinn í þéttbýli. Veitir reglugerðin í raun undanþágu frá lögum um póstþjónustu, þar sem kveðið er á um að P&F skuli tryggja að alls staðar á landinu sé alla virka daga borinn út póstur sem falli undir skilgreiningu á alþjónustu, nema kringumstæður og landfræðilegar aðstæður hindri slíkt, eins og það er orðað í lögunum.

 

Sem fyrr segir ber ríkinu, eða P&F fyrir hönd þess, að tryggja að landsmenn fái póstþjónustu hvern virkan dag. Ríkið hefur haft einkarétt á dreifingu pósts undir 50 grömmum. Með einkaréttinum hefur hugsunin verið sú að dreifing póstsins geti staðið undir kostnaði á svæðum sem standa ekki undir sér.

 

Hefur verið rekið með tapi

 

Innanríkisráðuneytið hefur kynnt drög að frumvarpi þar sem kveðið er á um afnám einkaréttar ríkisins á allri póstdreifingu. Um það hvort ekki sé hætt við að þjónusta í dreifðari byggðum muni þá skerðast enn frekar, segir Ingimundur það vera stóru spurninguna.

 

„Það er ljóst að þjónustan verður lakari ef ekki kemur nýtt fjármagn inn í þetta kerfi. Vandinn við þetta að það er verið að halda uppi þjónustu sem stendur ekki undir sér tekjulega séð. Ég get ekki ímyndað mér að neinn aðili sé tilbúinn að borga með því kerfi. Íslandspóstur getur það ekki og ég held að önnur hlutafélag muni ekki heldur geta það. Keppikefli Íslandspósts er að veita sem mesta og besta þjónustu, að því gefnu að hún sé á viðskiptalegum forsendum,“ segir Ingimundur og bendir á að víða erlendis sé ríkið að styrkja póstþjónustu á óarðbærum stöðum, eins og t.d. í Noregi, Svíþjóð, Belgíu og á Ítalíu og Bretlandi. „Hér er ekki ein króna í styrk til Póstsins. Okkur er gert að borga arð í ríkissjóð en við höfum ekki getað gert það undanfarin ár því þetta hefur verið rekið með tapi,“ bætir hann við.

 

Ingimundur segir að þar sem póstþjónustan sé rekin með tapi þá sé fyrirtækið nauðbeygt til að draga úr póstdreifingunni. „Það liggur í augum uppi að Íslandspóstur getur ekki rekið þetta með tapi í mörg ár. Það gengur á eigið fé og það klárast fyrr en síðar, miklu hraðar en fólk almennt áttar sig á. Þetta virðist oft gleymast í umræðunni.“

 

27.01.2016  Aðför að dreifðum byggðum

21.01.2016  Póstdreifingardögum fækkar um helming, Guðbirni pósti sagt upp

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30