Undraheimur Breiðafjarðar: Þingað um markaðsátak
Breiðafjarðarfléttan og Markaðsstofa Vesturlands efna til fundar á Hótel Stykkishólmi föstudaginn 15. febrúar frá kl. 10 til kl. 14.30 um markaðsátak fyrirtækja í ferðaþjónustu og tengdra aðila allt í kringum Breiðafjörð. Yfirskrift verkefnisins er Undraheimur Breiðafjarðar - allt árið. Tilgangur fundarins verður að vinna grófa áætlun fyrir verkefnið. Í framhaldinu verður síðan ákveðið hvort forsendur séu til að hrinda átakinu í framkvæmd.
Samþykkt var á aðalfundi Breiðafjarðarfléttunnar að hrinda í framkvæmd skoðun á tveggja til þriggja ára stórátaki í markaðssetningu. Hvort af því getur orðið byggist alfarið á áhuga og vilja aðila innan svæðisins og einnig á því hvernig tekst að fjármagna og skipuleggja átakið.
Þátttaka í fundinum óskast tilkynnt sem fyrst til Markaðsstofu Vesturlands í netfangið vilborg@vesturland.is. Fólk sem hyggst nýta sér tilboð í gistingu á Hótel Stykkishólmi hafi samband við hótelið í síma 430 2100 eða í netfanginu hotelstykkisholmur@hringhotels.is.
Nánari upplýsingar hjá Markaðsstofu Vesturlands í síma 437 2214.