Ungir upplesarar stóðu sig vel
Stóra upplestrarkeppnin var haldin í Reykhólaskóla núna 30. mars. Þeir sem tóku þátt voru Grunnskólinn á Drangsnesi, Grunnskólinn á Hólmavík og Reykhólaskólaskóli. Skólarnir hafa haldið keppnina til skiptis undanfarin ár. Einnig hafa áður tekið þátt, Finnbogastaðaskóli í Árneshreppi, og Grunnskólinn á Borðeyri.
Alls voru 9 keppendur;
frá Grunnskólanum á Drangsnesi:
Sigurbjörg Halldóra Halldórsdóttir
frá Grunnskólanum á Hólmavík:
Arndís Una Karlsdóttir
Þorsteinn Jónsson
frá Reykhólaskóla:
Adrian Kowalczyk
Hlynur Hjaltason
Ólafur Guðni Helgason
Samúel Ingi Björnsson
Sara Dögg Eyvindsdóttir
Sigurjón Árni Torfason
Keppnin er 3 umferðir, fyrst var lesið upp úr Bláa Hnettinum eftir Andra Snæ Magnason, Díana Jórunn Pálsdóttir frá Hólmavík kynnti þann lið, því næst voru lesin ljóð eftir Steinunni Sigurðardóttur, það kynnti Solveig Rúna Eiríksdóttir frá Reykhólaskóla. Allir keppendur fengu bók sem er sérprentun fyrir þessa keppni, með úrvali ljóða eftir Steinunni, bókin ber heitið Nokkrir lagstúfar úr stóru söngbókinni. Að lokum lásu þau ljóð að eigin vali.
Milli umferða voru frábær söngatriði frá skólunum á Ströndum. Á Drangsnesi eru börnin að færa upp dagskrá um Torbjørn Egner og þaðan komu misvinsælir félagar, sem sungu reyndar alveg framúrskarandi vel, þetta voru Karíus og Baktus!
Áðurnefnd Díana Jórunn Pálsdóttir frá Hólmavík söng af krafti og öryggi, Umvafin englum sem Guðrún Gunnarsdóttir hefur m.a. sungið.
Meðan dómnefnd sinnti því erfiða verkefni að velja 3 úr þessum hópi ágætra upplesara, var boðið upp á veitingar.
Úrslitin voru eftirfarandi
1. Sara Dögg Eyvindsdóttir, Reykhólaskóla
2. Sigurbjörg Halldóra Halldórsdóttir, Grunnskólanum Drangsnesi
3. Adrian Kowalczyk, Reykhólaskóla
Þó aðeins 3 hafi fengið viðurkenningarskjöl og peningaverðlaun, þá eru allir þátttakendur sigurvegarar, því það er talsvert meira en að segja það að koma fram og láta dæma sig.
Dómnefnd skipuðu; Jón Hjartarson frá Röddum, samtökum um vandaðan upplestur og framsögn, sem hefur veg og vanda af þessari keppni, María Játvarðardóttir Hólmavík og Sveinn Ragnarsson Reykhólahreppi.
Myndirnar tóku Ingibjörg Birna Erlingsdóttir og Sveinn Ragnarsson.