Tenglar

11. nóvember 2008 |

Ungmennafélög voru í öllum hreppum Austursýslunnar

Frá afmælisfagnaðinum í Dalabúð. Myndir: Þórarinn Ólafsson.
Frá afmælisfagnaðinum í Dalabúð. Myndir: Þórarinn Ólafsson.
1 af 3

90 ára afmælisfagnaður Ungmennasambands Dalamanna og Norður-Breiðfirðinga (UDN) var haldinn í Dalabúð í Búðardal á laugardag. Sambandið tók á sig núverandi form árið 1972 þegar sameinuð voru Ungmennasamband Dalamanna (stofnað 1918) og Ungmennasamband Norður-Breiðfirðinga (stofnað 1936). Meðfylgjandi myndir tók Þórarinn Ólafsson í fagnaðinum en miklu fleiri er að finna undir Ljósmyndir > Myndasyrpur > UDN 90 ára í valmyndinni til vinstri.

 

Egill Sigurgeirsson á Mávavatni á Reykhólum flutti samantekt um ungmennafélög sem starfað hafa í Austur-Barðastrandarsýslu og fer hún hér á eftir. Eins og þar kemur fram voru á fyrri tíð starfandi ungmennafélög í öllum hreppunum fimm í sýslunni, sem nú mynda Reykhólahrepp hinn nýja.

 

_______________________________________________________________________________________________

 

Góðir gestir og félagsmenn UDN!

 

Ég ætla að fara stuttlega yfir sögu ungmennafélaga í Austur-Barðastrandarsýslu, sem nú er eitt sveitarfélag, Reykhólahreppur, og tilheyrir sambandssvæði UDN.

 

Ungmennasamband Norður-Breiðfirðinga var stofnað í Flatey 1. desember 1936 og hafði ungmennafélagið í Flatey forgöngu um stofnun þess. Náði sambandssvæðið yfir Austur-Barðastrandarsýslu með eftirtöldum félögum: 

  • Ungmennafélagið í Flatey, stofnað 1909 (ekki vitað hvenær það varð óvirkt).
  • Ungmennafélagið Vísir í Múlasveit, stofnað 1928 (síðasti skráði fundur 1957).
  • Ungmennafélagið Hvöt í Gufudalssveit, stofnað 1927 (starfsemin leggst af um 1956).
  • Ungmennafélagið Unglingur í Geiradal, stofnað 1909 (síðasti skráði fundur 1980, sameinað Aftureldingu 1989).
  • Ungmennafélagið Elding í Reykhólasveit, líklega 1906-1910, en litlar heimildir eru til um félagið.
  • Ungmennafélagið Afturelding í Reykhólasveit, stofnað 1924, starfar enn og er jafnframt eina starfandi ungmennafélagið í Austur-Barðastrandarsýslu - Reykhólahreppi.

Áður en Ungmennasamband Norður-Breiðfirðinga var stofnað tilheyrðu félögin á svæðinu Ungmennasambandi Vestfjarða (UMSV).

 

Í sumarbyrjun 1972 eru Ungmennasamband Dalamanna og Ungmennasamband Norður-Breiðfirðinga sameinuð á fundi í Vogalandi. Sátu fundinn fulltrúar frá báðum samböndum og skyldi sambandið heita Ungmennasamband Dalamanna og Norður-Breiðfirðinga, skammstafað UDN.

 

Næst ætla ég að vitna í fundargerð aðalfundar UMFA, sem haldinn var í þing- og samkomuhúsinu í Berufirði 19. júlí 1959 og sýnir að fundir þurfa ekki endilega að vera leiðinlegir heldur hin besta skemmtun.

 

„Ýmislegt fleira bar á góma og var m.a. samþykkt að halda skemmtun í Bjarkalundi. Þegar dofna fór yfir umræðum var stungið upp á að slá upp balli og vakti sú tillaga slíkan fögnuð að fundurinn leystist upp svo að við ekkert varð ráðið og var honum aldrei slitið. Því má bæta við að úr þessu varð hinn vinsælasti dansleikur og héldu fundarmenn ánægðir hver til síns heima upp úr miðnætti.“

 

Að lokum vil ég óska UDN til hamingju með 90 ára afmælið og óska þess og vænti, að starfsemi sambandsins megi vaxa og dafna í framtíðinni. Tel ég starfsemi ungmennafélaga og ungmennasambanda mjög mikilvæga á þeim umrótatímum sem við lifum nú. Ég vil einnig þakka öllum þeim sem leggja starfsemi ungmennafélaganna lið með fórnfúsu sjálfboðastarfi og umhyggju fyrir heilbrigðu samfélagi.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31