Ungmennaráð Reykhólahrepps tók þátt í Ráðabruggi
Hvernig getur ungt fólk verið þrýstiafl í samfélaginu? Hvernig getur það látið raddir sínar heyrast? Á málþinginu Ráðabrugg sem haldið var í Ráðhúsinu í dag var rætt um valdeflingu ungs fólks og leiðir til að þrýsta á ráðamenn um að leita samráðs við ungt fólk. Reykjavíkurráð ungmenna og ungmennaráð skátanna stóðu fyrir málþinginu undir fyrirsögninni Ráðabrugg.
Málþingið sátu fulltrúar í alls konar ungmennaráðum, starfsfólk ungmennaráða og aðrir áhugasamir um valdeflingu ungs fólks. Í erindum og málstofum var skipst á hugmyndum og sagðar reynslusögur úr starfi ungmennaráðanna og lögð drög að nýjum verkefnum til að efla þátttöku ungs fólks í ákvörðunum er snúa að þeirra hagsmunamálum, eins og skólastarfi, frístunda- og íþróttastarfi, loftslagsmálum, kynfræðslu og fl.
Hádegishléið nýttu málþingsgestir til að taka þátt í mótmælum á Austurvelli og krefast tafarlausra aðgerða í loftslagsmálum.
Óhætt er að segja að málþingið hafi verið mörgum innblástur og að margar hugmyndir hafi kviknað um hvernig megi virkja ungt fólk til lýðræðisstarfs og þátttöku í margvíslegum samfélagsverkefnum enda eru öll mál málefni ungs fólks.
Myndirnar tók Jóhanna Ösp Einarsdóttir.