Unnið að þverun og brúargerð í Kjálkafirði
Myndirnar sem hér fylgja tók Sveinn Ragnarsson á Svarfhóli í fyrradag þar sem unnið er við þverun og brúargerð í Kjálkafirði allra vestast í Reykhólahreppi. Verkið gengur samkvæmt áætlun, hvað svo sem líður skriðuföllum og hættu á skriðuföllum nokkru utar við fjörðinn að austanverðu (Litlanesmegin). Þegar Sveinn átti þarna leið voru menn að vinna við undirstöður brúarstöplanna og þurfa að gera það neðan sjávarmáls. Rekin eru niður stálþil utan um sökkulstæðin og sjónum dælt upp úr þrónum jafnóðum og hann hripar inn.
Brúin sjálf verður 116 metra löng í nánast miðri vegfyllingunni (garðinum) yfir fjörðinn, eins og sjá má á korti Vegagerðarinnar á mynd nr. 9. Þetta er ólíkt því sem er í Gilsfirði, þar sem brúin er mjög nærri landi að vestanverðu.
Á mynd nr. 8 er Skiptá með svuntufossinum sínum fríða innarlega í Kjálkafirði að austanverðu. Skiptá dregur nafn af því, að hún skiptir löndum milli Austur- og Vestur-Barðastrandarsýslu og þar með milli Reykhólahrepps og Vesturbyggðar (fyrrum milli Múlahrepps og Barðastrandarhrepps áður en sveitarfélög voru sameinuð beggja vegna).
Þverunin yfir fjörðinn er nokkru utar en Skiptá og þess vegna losna vegfarendur ekki aðeins við einbreiðu brúna sem þar er, heldur missa þeir líka af því að fara yfir þessa litlu og merkilegu á. Í stað þess að fara yfir mörk sveitarfélaganna (og sýslumörkin gömlu) þegar farið er yfir ána verður það einhvers staðar á þveruninni. Sveinn á Svarfhóli segir að menn hafi verið að grínast með það, að þegar Skiptá verður ekki lengur í þjóðbraut viti þeir ekki lengur hvenær þeir séu í austursýslunni eða vestursýslunni.
Hætt er við að margir hafi ekið yfir Skiptá án þess að taka eftir fossinum fagra í hlíðinni rétt fyrir ofan, fossinum sem minnir svolítið á Fjallfoss í Dynjandi*) í Arnarfirði í mjög smækkaðri mynd. En fátt er svo með öllu illt, eins og sagt er. Framvegis mun fossinn blasa við þeim sem fara yfir þverunina í austurátt eins og sjá má á myndinni sem einmitt er tekin á vegfyllingunni yfir fjörðinn.
En vegfarendur losna ekki aðeins við einbreiðu brúna á Skiptá heldur einnig við snjóþyngslin í botni Kjálkafjarðar. Það sama gildir um Mjóafjörð, næsta fjörð fyrir austan, sem líka verður þveraður. Fjórar einbreiðar brýr lenda innan þverana Kjálkafjarðar og Mjóafjarðar og vegfarendur munu því losna við þær, allar frá árunum 1968-69.
_____________________________________
*) Sumir kalla fossinn Dynjanda en aðrir Fjallfoss. Fyrrum stóðu (og standa jafnvel enn) um það hatrammar deilur hvort heitið væri réttara og skal ekki flækst í það hér. Þess má samt geta, að árheitið Dynjandi er kvenkynsorð og óbreytt í öllum föllum, rétt eins og orðin ævi og elli. Rithátturinn „Fjallfoss í Dynjandi“ er þannig ekki misritun.