Tenglar

16. janúar 2014 | vefstjori@reykholar.is

Upphækkun vegarins á Þröskuldaleið ekki á dagskrá

Í óveðurskaflanum á undanförnum vikum hefur iðulega þurft að beina umferð um Strandir þar sem vegurinn um Þröskulda var ófær. Þetta gerðist á sama tíma og bílar komust yfir Steingrímsfjarðarheiði þar sem vegurinn liggur þó hærra. Jón Hörður Elíasson, rekstrarstjóri Vegagerðarinnar á Hólmavík, segir það sitt mat að vegurinn um Þröskulda liggi of lágt í landinu og þyrfti að vera meira uppbyggður. Þetta eigi sérstaklega við tvo staði, annan Gautsdalsmegin og hinn Arnkötludalsmegin.

 

Engin áform eru þó um að hækka veginn um Þröskulda. Magnús V. Jóhannsson, svæðisstjóri vestursvæðis Vegagerðarinnar, segir að vegurinn hafi verið hækkaður á löngum köflum á verktímanum. „Vegurinn var hannaður í flýti en á verktímanum sáu menn að það voru staðir þar sem betra var að hækka veginn og var það gert,“ segir Magnús, og bendir á að vegurinn hafi farið langt fram úr kostnaðaráætlun vegna þessa. „Það hefur ekki verið tekið fyrir að fara í upphækkanir á þessum köflum. Það er hart í ári með peninga um þessar mundir og fjármunir sem færu í þetta yrðu teknir af öðrum verkefnum.“

 

Þetta kemur fram í viðtölum við þá Jón Hörð og Magnús í Bæjarins besta / bb.is á Ísafirði.

 

Jón Hörður segir að ekki megi taka svo djúpt í árinni að segja að Steingrímsfjarðarheiðin hafi ávallt verið fær umrædda daga, mjög blint var á heiðinni og lentu minni bílar í vanda. Hann segir þó auðveldara að halda Steingrímsfjarðarheiði opinni en Þröskuldum vegna legu veganna. Veglína Þröskulda er nánast öll í norðaustur-suðvestur, samsíða norðaustanáttinni sem er ríkjandi óveðursátt og því eru ökumenn með kófið í augunum alla leiðina. Á Steingrímsfjarðarheiði kemur norðaustanáttin þvert á veginn á löngum köflum og verður skyggnið því ekki eins slæmt.

 

Tekur Jón Hörður þar undir mat Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings, en hann hefur áður bent á að stefna vegarins samsíða ríkjandi átt geri ökumönnum erfitt fyrir. Þá velti hann því fyrir sér hvort aðstæður í landslaginu þar sem Arnkötludalur og Gautsdalur koma saman efst á heiðinni valdi svokölluðum trektaráhrifum, sem gerir það að verkum að vindurinn magnast enn frekar efst uppi með tilheyrandi kófi, en tók fram að hann hafi ekki skoðað það mál náið.

 

Magnús segir að það hafi alltaf verið ljóst að Þröskuldaleið væri mikið veðravíti í norðaustanátt. Vegstæðið er langt frá eldri vegum og segir Magnús að þegar farið er um ónumið land sé erfitt að átta sig á aðstæðum. Þarna voru á sínum tíma gerðar veðurfarsrannsóknir þó svo að þær hafi ekki verið eins og best verður á kosið, að sögn Magnúsar. Hann segir að þær hefðu mátt vera ítarlegri, en vegna reynslu vegagerðarmanna á verktímanum hafi verið farið í áðurnefndar upphækkanir.

 

Magnús segir enn fremur, að þegar vegur er kominn í landslag hafi hann veðurfarsáhrif og geti breytt snjóalögum og tekið sé tillit til þess við hönnun vega. Ekki sé þó endilega víst að upphækkun leysi vandamálin á Þröskuldaleið, og tekur hann undir orð Jóns Harðar, að það sé blinda frekar en ófærð sem loki veginum í flestum tilfellum.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31