Tenglar

14. mars 2020 | Sveinn Ragnarsson

Upplýsingar frá sveitarstjórn um samkomubann o.fl.

Sæl kæru sveitungar.

Heilbrigðisráðherra tilkynnti í gær þá ákvörðun að virkja heimildir sóttvarnalaga til að takmarka samkomur tímabundið í fjórar vikur til að hægja á útbreiðslu COVID-19. Samkomubannið gildir í fjórar vikur, frá og með mánudeginum 16. mars kl. 00:01 til og með mánudagsins 13. apríl kl. 00:01.


https://www.covid.is/flokkar/hvad-thydir-samkomubann

 

Nánari útfærslur í Reykhólahreppi verða unnar samkvæmt tilmælum stjórnvalda. Sveitarstjórn í samvinnu við Reykhólaskóla vinnur nú að skipulagningu skólastarfs miðað við ofangreinda ákvörðun.


Nú þegar hefur verið ákveðið að mánudaginn 16. mars verði starfsdagur í Reykhólaskóla, grunn- og leikskóladeild, til að stjórnendur og starfsmenn í samráði við sveitarstjórn geti skipulagt skólastarfið sem best á þessu tímabili sem takmörkunin nær til.

 

Tómstundastarf fellur niður mánudaginn 16. mars.


Foreldrar barna í Reykhólaskóla, grunn- og leikskóladeild, eru beðnir að fylgjast vel með upplýsingum sem birtast munu á mánudag. Upplýsingar til foreldra verða sendar með tölvupósti, smáskilaboðum og á heimasíðu Reykhólaskóla og Reykhólahrepps.

 

Heimsóknarbann er enn í gildi í Barmahlíð, ákvörðun frá 10. mars, og er í gildi um óákveðinn tíma vegna COVID-19 veirufaraldurs. Þetta er gert til þess að tryggja sem best öryggi heimilisfólks og íbúa, en íbúar Barmahlíðar tilheyra þeim hópi sem eru í sérstökum áhættuhóp að veikjast alvarlega af kórónaveiru.

 

Vinsamleg tilmæli eru til einstaklinga sem hafa verið á ferðalagi á skilgreindum áhættusvæðum á undangengnum 14 dögum eða umgengist hafa sjúklinga með kórónaveirusýkingu COVID-19 að fara í sóttkví til öryggis fyrir sjálfa sig og aðra. Á heimasíðu landlæknis má finna  leiðbeiningar fyrir almenning um sóttkví í heimahúsi.


Jafnframt vill sveitarstjórn Reykhólahrepps beina þeim vinsamlegu tilmælum til fólks að ferðast ekki á staði þar sem kórónaveirusýking COVID-19 hefur verið greind sé það ekki nauðsyn. Fámennt og jafn náið samfélag og Reykhólahreppur er má ekki við miklu til þess að kórónaveirusýkingin COVID-19 hafi veruleg áhrif á atvinnulífið.

 

Miklu skiptir að við höldum öll ró okkar og förum eftir því sem heilbrigðisyfirvöld segja okkur að gera.

 

Stöndum saman.


                                                              Árný Huld Haraldsdóttir
                                                              Ingimar Ingimarsson
                                                              Ágústa Ýr Sveinsdóttir
                                                              Embla Dögg Bachmann Jóhannsdóttir
                                                              Jóhanna Ösp Einarsdóttir  

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31