Tenglar

26. desember 2015 |

Upplýsingar um Reykhólafélagið óskast

Vísir 21. apríl 1965. Auglýsingin birtist líka í Morgunblaðinu sama dag.
Vísir 21. apríl 1965. Auglýsingin birtist líka í Morgunblaðinu sama dag.
1 af 2

„Þið hugsið allt í pólitík. Annars stendur til að við endurreisum Reykhólafélagið. Það verður eins konar ríki í ríkinu, eða kannski keppinautur Frímúrarareglunnar. Þegar Reykhólafélagið hefur verið endurreist verður ómögulegt að vita hver stjórnar landinu.“

 

Þetta sagði Jón Leifs tónskáld árið 1959. Svo virðist sem félagið hafi í raun verið endurreist, því að auglýsing um aðalfund og ársskemmtun Reykhólafélagsins birtist í Morgunblaðinu og Vísi sex árum seinna.

 

Ekki hefur umsjónarmaður vefjarins fundið fleira um Reykhólafélagið. Þeir sem kunna að geta veitt frekari upplýsingar eru beðnir að gera það í athugasemdakerfinu hér fyrir neðan eða senda tölvupóst, nema hvort tveggja væri.

 

Í Morgunblaðinu 5. maí 1959 birtist viðtal sem Matthías Johannessen átti við Jón Leifs í tilefni af sextugsafmæli hans 1. maí. Viðtalið var endurbirt í Lesbók Morgunblaðsins 1. maí 1999 þegar öld var liðin frá fæðingu Jóns.

 

Brot úr viðtali Matthíasar við tónskáldið:

 

En ég hefði aldrei getað stúderað tónlist ef móðir mín hefði ekki stofnað verzlun og stutt mig. Hún heitir Ragnheiður Bjarnadóttir. Hún fékk lánaðar 5 krónur hjá pabba og stofnaði Silkibúðina með Kristínu Sigurðardóttir 1908. Þú ættir heldur að tala við hana. Hún er fjölfróð og minnisgóð, þó hún sé orðin 85 ára. Hún er dóttir Bjarna á Reykhólum – ja – há, það er nú svo. Afkomendur hans eru orðnir um 400, þrekmikið fólk, og ég gæti hugsað mér að Egill sé ættfaðirinn. Bjarni var breiður maður og þrekinn með digran háls eins og Egill.

 

– Það er víst bezt að tala virðulega um jafn stóra ætt, svona rétt fyrir kosningar.

 

– Já, það má vera. Þið hugsið allt í pólitík. Annars stendur til að við endurreisum Reykhólafélagið. Það verður eins konar ríki í ríkinu, eða kannski keppinautur Frímúrarareglunnar. Þegar Reykhólafélagið hefur verið endurreist verður ómögulegt að vita hver stjórnar landinu.

 

– Manstu eftir Bjarna afa þínum?

 

– Já, já. Hann var merkismaður. Þegar hann fór með afurðir sínar á haustin í kaupstað hef ég heyrt sagt að hann hafi tjaldað sjálfur og selt þær, en hvorki farið til kaupmannsins né kaupfélagsins. Hann var sjálfstæður, karlinn, og óhræddur, eins og menn eiga að vera.

 

– Ég hef stundum heyrt, að Reykhólaættin sé, ja svona dálítið gefin fyrir peninga.

 

– Jæja, hefurðu heyrt það. Kannski það sé fjáraflafólk, ætli það?

 

– Sumir segja að þú hafir erft fjármálahæfileika þína úr þeirri ætt.

 

– Ég hef enga slíka hæfileika. Ég hef aðeins hæfileika til að leggja mig niður við ýmislegt, sem ég vildi helzt ekki koma nærri. [...] En við vorum að tala um Reykhólaættina. Við Hans Þórðarson leituðum um daginn að lögfræðingi í Reykhólaættinni, en fundum engan. Það er góðs viti, sagði Hans.

 

Athygli kann að vekja vegna orða tónskáldsins um Frímúrararegluna, að halda skal umræddan aðalfund og ársskemmtun í húsi Oddfellowreglunnar ...

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31