Upprifjun í minningu Sveins á Miðhúsum
Sveinn Guðmundsson bóndi og kennari á Miðhúsum í Reykhólasveit var fréttaritari Morgunblaðsins í héraðinu í liðuga fjóra áratugi, eða frá 1955 og allt þar til hann og Ólína Jónsdóttir eiginkona hans fluttust til Reykjavíkur. Þá var hann kominn á áttræðisaldur. Sveinn var einn af ötulustu og áhugasömustu fréttariturum landsins og var heiðursfélagi Okkar manna, félags fréttaritara Morgunblaðsins.
Brennandi áhugi á margvíslegum hugðarefnum og öllu því sem hann tók sér fyrir hendur einkenndi Svein á Miðhúsum. Það kom líka fram í fréttaskrifum hans í Morgunblaðinu. Hann lét sér ekki nægja að skrifa þurrar fréttir heldur lét hann í ljós skoðanir sínar á málum og hafði til þess fullt leyfi ritstjóra, eins og fram kemur í áramótapistli sem hann skrifaði fyrir réttum þrjátíu árum (þegar hann hafði verið fréttaritari í þrjátíu ár) og birtur er í heild hér fyrir neðan.
Sveinn var sérlega ritfær og kom það ekki síst fram þegar honum var mikið niðri fyrir og fengu þá ýmsir meinlegar ádrepur. Pistlar hans eru iðulega hreinn skemmtilestur, en slíkt má teljast fremur óvenjulegt hjá fréttariturum. Á hinn bóginn átti náttúruvinurinn og fagurkerinn Sveinn á Miðhúsum líka til ljóðræna spretti í fréttaskrifum sínum.
Stundum fyrr á árum gat það dregist nokkuð að pistlar fréttaritara birtust, jafnvel tvær-þrjár vikur. Eitt sinn keyrði þó um þverbak. Á fundi fréttaritara árið 1993 sagði Sveinn frá sinni mest umtöluðu frétt. Hún var um óvenjumikið fannfergi og send um miðjan vetur en birtist eins og fjandinn úr sauðarleggnum á miðju sumri. Og fékk að vonum flenniuppslátt.
Áður en komið er að áramótapistlinum sem Sveinn skrifaði fyrir Morgunblaðið á gamlársdag 1985 skulu hér tilfærðar nánast af handahófi fáeinar klausur úr fréttum hans og fréttabréfum. Þær eru af ýmsu tagi og hafa að geyma bæði ádrepur og ljóðrænu ásamt fréttabrotum sem eru fróðleg enn í dag og kannski einhverjum til upprifjunar. Þetta efni er allt frá árunum 1960 til 1965 eða mjög litlum hluta af ferli Sveins í fréttaskrifum í Mogga. Ef öllum skrifum hans í Morgunblaðinu væri safnað saman, þá væri það í senn mikil lesning og einstakur héraðsannáll.
________________
- Einn bezti vetur aldarinnar er liðinn. [...] Grænum blæ slær nú á tún og fyrstu blóm vorsins eru þegar farin að setja svip sinn á gróðurinn og má þar til nefna: Vorperla (E. verna) breiddi krónur sínar móti vorsólinni í miðjan apríl. Brennisóleyjar eru farnar að láta bera á sér í túnunum, en heldur eru þær smáar ennþá. Krækilyngið stendur nú í fullum blóma og má búast við því ef vorið verður umhleypingasamt að lítið verði um berjauppskeru í haust. Blóðbergið sendir frá sér sína sterku ilman út í sauðlausar hlíðarnar. Sem sagt, vorið er komið mánuði fyrr en venjulega. (1960.)
- Hótel Bjarkalundur lokaði um miðjan október og hefur aldrei verið meiri umferð en í sumar. Stafar það af hinni góðu veðráttu annars vegar og svo var hinn nýi Vestfjarðavegur opnaður á sumrinu og fóru margir til þess að sjá hina fögru og hrikalegu náttúru Vestfjarðanna. Hótelið hafði leigðan barnaskólann á Reykhólum og veitti því ekki af því til þess að geta tekið á móti hinum mörgu næturgestum. (1960.)
- Félagslíf var hér með bezta móti í vetur og starfaði hér bændaver (klúbbur) og var starfseminni í stuttu máli hagað þannig: Verið hefur engin lög, allir bændur hreppsins geta mætt á fundum án þess að gerast meðlimir. Engin félagsgjöld eru, engar fundargerðir eru gerðar, en fundarstjóri er skipaður. Í lok hvers fundar kýs fundurinn 3 menn til þess að sjá um næsta fund, en þeir eru hér hafðir á heimilunum til skiptis. Nefndarmenn útvega framsögumann og velja fundarstaðinn.
- Á þessum fundum hér, sem voru haldnir mánaðarlega, voru mörg mál rædd og má nefna ræktunarmál, rafmagnsmál, félagsmál og þar undir kjaramál, fóðrun búpenings, vélaþörf við landbúnaðinn og lánamál, og mörg fleiri mál voru tekin fyrir.
- Fundirnir byrjuðu venjulega um kl. 10 að kveldi og gátu staðið fram eftir nóttu eða fram undir morguninn, þegar kapp var mikið í umræðunum.
- Á fyrsta fundinum munu hafa mætt um 20 menn, en þeim fór stöðugt fjölgandi sem sóttu þessa fundi, og á síðasta fundi var nær fulltrúi frá hverjum bæ hreppsins. Það er ákveðið að „verið“ starfi áfram næsta vetur. (1962.)
- Símaþjónusta er hér mjög bágborin, þó ekki sé um að kenna starfsfólki á símstöðinni í Króksfjarðarnesi, því að það hefur gert miklu meira en skyldu sína. Hér í Reykhólahreppi er t.d. hrúgað saman yfir 20 símtækjum á eina línu og er því oft erfitt að komast að á vissum tímum dagsins. Þar ofan í kaupið er annað hvert langlínusímtal hálfónýtt vegna þess hve talsambandið er lélegt. Á sínum tíma var það mikið þrekvirki að koma síma á flest sveitabýli landsins, en tæknin heldur áfram. Þess vegna á að stefna að því að hver sveitabær fái einkasíma, því eins og nú er, þar sem mörgum taltækjum er hrúgað saman á sömu línu, er síminn orðinn að hálfgerðu ómenningartæki. (1963.)
- Eins og vænta má hafa bændur hér áhuga fyrir störfum Búnaðarþings, og þar bar mest á, eins og oft áður, á „Bjössa á mjólkurbílnum“, en þar á ég við holdanautamálið. Það virðist vera orðinn fastur liður á þeirri virðulegu samkundu að ræða þetta mál, en þó finnst mér að vanti allar forsendur fyrir því að hægt sé að ræða það mál með nokkrum hyggindum. (1963.)
- Því hefur oft verið haldið fram og jafnvel verið trúarjátning hjá sumum bændum, að búfræðingar væru yfirleitt verri bændur en þeir sem aldrei hefðu að heiman farið, og að synir þeirra myndu forheimskast ef þeir stigju fæti sínum inn fyrir dyr búnaðarskólanna. (1964.)
- Víðast hvar eru ungmennafélögin í dvala og sum eru sofnuð svefninum langa. Félögin sem enn eru á lífi, og á að heita að starfi eitthvað, hafa tvo til þrjá fundi á ári og aðaláhugamál þeirra að standa fyrir menningarsnauðum dansleikjum. Til eru heiðarlegar undantekningar, félög sem starfa í hinum gamla góða félagsanda og starfa á menningarlegum grundvelli, en þar hefur valizt til forustu gott, óeigingjarnt og áhugasamt fólk. (1964.)
- Eitt af þeim málum sem afstöðu þarf að taka til innan tíðar, er það hvort ekki sé orðið tímabært að stækka hreppsfélögin, það er að sameina tvo eða fleiri hreppa í einn stórhrepp.
- Hér áður var stærð hreppanna miðuð við þá samgöngutækni sem þekkt var, hestinn, bátinn og farartæki fátæka mannsins, fæturna. Í dag er öld hraðans; þá vegalengd sem þurfti marga klukkutíma til þess að fara er hægt að komast nú á örskömmum tíma. Hér áður þurfti að senda mann með sérhver skilaboð, en nú er sveitasími inni á sérhverju heimili, sem getur tekið við því, sem allir mega vita.
- Venjulega eru hreppar vegna smæðar sinnar vanmegnugir að gera það sem gera þarf, og margt af því sem gert er, er miklu hagkvæmara að leysa á breiðari grundvelli.
- Hins vegar mundu eflaust margir sjá eftir því að missa stöður sínar, því að hreppstjórum yrði fækkað; oddvitar, hreppsnefndarmenn, skólanefndarmenn mundu missa embætti sín, svo að eitthvað sé nefnt af virðingarstöðum hreppsfélagsins, og væri þá ekki hætta á að hin gamla, rótgróna hreppapólitík myndi rísa upp í öllu sínu veldi til þess að afstýra því að tveir eða fleiri hreppar yrðu sameinaðir? (1964.)
- Fyrir norðan Hellishóla var býli er kallað var Runkhús og þar og í svonefndri Hvanngarðabrekku hefur Kvenfélagið „Liljan“ byrjað á skrúðgarði og verður væntanlega er fram líða stundir til yndisauka fyrir byggðarlagið. (1964.)
- Aðalfundur Sambands breiðfirzka kvenna var haldinn að Reykhólum dagana 18. til 21. júní og þar skeði það að sambandið klofnaði í tvennt. Snæfellsnesskonurnar sögðu sig úr en breiðfirzkar stofnuðu sitt eigið. Sú hugmynd bréfritara um það að konur væru yfirleitt miklu betur félagslega þroskaðar en karlmenn varð fyrir áfalli, en kannski er hér aðeins um undantekningu að ræða. (1965.)
- Hér í skammdeginu hefur verið öndvegistíðarfar og má segja að varla hafi sézt hér gráð á jörð hvað þá meiri snjór. Nokkuð hefur borið á rafmagnstruflunum að undanförnu og hefur fólk orðið að taka upp hjá sér kerti og þeir sem lampa eiga orðið að leita að rommpúnsinu, fægja glös, láta á þá olíu, svo hægt væri að tendra ljós. (1965.)
________________
Í Morgunblaðinu sumarið 1961 er rætt við Birgi Kjaran alþingismann, og segir þar í inngangi að hann eigi sennilega eitt stærsta steinasafn á Íslandi. „Í sumar bættust honum enn fallegir steinar. Hann kom með fullan poka heim úr sumarfríinu, fór norður og vestur, skoðaði fugla, tíndi steina og skeljar.“ - Klausa úr viðtalinu:
- „Ég heimsótti Svein bónda Guðmundsson á Miðhúsum í Reykhólasveit. Hann á 30-40 eyjar á Breiðafirði, er mikill náttúruskoðandi og hefur greint samkvæmt Flóru um 100 jurtategundir í einni eyjunni. Mjög merkilegur maður. - Þarna tíndi ég steina, því fallegustu og fágætustu steinana finnur maður á Vestfjörðum og á Austfjörðum, elztu hlutum Íslands.“
Haustið 1965 birtist í Morgunblaðinu erindi sem Hákon Bjarnason skógræktarstjóri hafði flutt á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands skömmu áður. Er það frásögn af ferð sem hann og Snorri Sigurðsson skógfræðingur fóru um Barðastrandarsýslu og Vestur-Ísafjarðarsýslu þá um sumarið. Eftir að þeir höfðu skoðað skógræktina í Barmahlíð og rætt við Jens Guðmundsson skólastjóra á Reykhólum, sem „hefur gætt hennar með prýði um nokkur ár“, er komið í heimsókn á Miðhúsum.
- „... og þar sá ég nokkuð, sem er í frásögur færandi. Þar stóð íbúðarhús í miðjum garði, sem var afgirtur, svo að búfé komst ekki að húsum heim. Af þessum ástæðum var mjög snyrtilegt og þrifalegt umhverfis húsið og ólíkt því, sem gerist til sveita. Ég minnist ekki hafa séð slíkt fyrr, nema á Galtalæk á Landi fyrir mörgum árum.“
________________
Núna viku af desember voru tíu ár liðin frá andláti Sveins Guðmundssonar. Hér má lesa frétt Morgunblaðsins um fráfall hans, þar sem gerð er nánari grein fyrir æviatriðum hans en hér hefur komið fram.
Meðal þeirra sem rituðu minningarorð um Svein var systursonur hans, Bjarki Bjarnason frá Mosfelli í Mosfellssveit, sem á sínum tíma var skólastjóri á Reykhólum. Hann segir þar m.a.:
- En bústangið var frænda mínum ekki nóg. Hann aflaði sér frekari menntunar og stundaði kennslu um árabil. Sem kennari opnaði Sveinn myndabók náttúrunnar fyrir mörgum og hann var einnig frábær íslenskumaður. Landið, náttúran, tungan og bókmenntirnar mynduðu hjá honum órofa heild sem hvíldi á traustum grunni.
- Kennslustörfin áttu vel við Svein enda átti hann afar auðvelt með að ná til barna og unglinga. Fyrir tveimur áratugum lágu leiðir okkar saman í Reykhólaskóla þar sem hann kenndi bæði líffræði og íslensku og var sérlega vel liðinn af nemendum og samstarfsfólki. Hann var glaðsinna og mikið ljúfmenni í öllum samskiptum.
- Í fyllingu tímans brugðu Sveinn og Ólína búi á Miðhúsum. Þau fluttu suður til Reykjavíkur, í húsið við Heiðargerði sem afi og amma reistu á sínum tíma og þar bjó Sveinn síðustu æviár sín.
- Langri vegferð Sveins Guðmundssonar lýkur þegar skammdegið er sem svartast og grös og jurtir liggja í dvala. En sól mun aftur hækka á lofti og náttúran kvikna til lífsins á nýjan leik. Og ljúfar minningar um góðan dreng munu lifa.
Orð Bjarka Bjarnasonar um Svein á Miðhúsum vill sá er þetta tók saman á gamlársdag 2015 gera að sínum.
________________
Áramótafréttir frá Miðhúsum:
Þörungavinnslan hangir á nástrái
- og því ekki von á framförum á meðan
Miðhúsum á gamlársdag [1985].
Árið sem er að kveðja hefur markað spor í sögu okkar eins og flest ár sem fara í tímans djúp.
Nú eru liðin 30 ár síðan ég byrjaði að skrifa fréttir héðan úr Reykhólasveit. Ég hef stundum látið gamminn geisa. Munnlegir samningar voru á milli mín og þáverandi ritstjóra að ég mætti skrifa það sem ég vildi, ef ég skrifaði undir nafni. Að sjálfsögðu tel ég það góðan kost, en þrátt fyrir það finn ég oft til þess að stakkur fréttaritarans er oft of þröngur. Þar á ég við að erfitt er að fylgja málum eftir sem gerast að hluta utan svæðisins.
Þörungavinnslan: Eftir þeim fregnum sem fréttaritari hefur aflað sér hefur rekstur Þörungavinnslunnar verið svipaður og undanfarin ár. Hins vegar er ekki von á framförum á meðan hún er látin hanga á nástrái ár eftir ár þrátt fyrir velvilja ráðamanna. Núverandi iðnaðarráðherra hefur gengið undir nafninu vinur litla mannsins. Gæti hann líka orðið vinur sveitamannsins, en þá þarf að leysa þetta Þörungavinnslumál þannig að allir geti vel við unað.
Fólksfækkun: Í Vestfirðingafjórðungi fækkar fólki og við eigum Íslandsmet í því hve þingmenn okkar hafa fáa kjósendur á bak við sig. Það gæti verið verkefni fyrir félagsfræðinga hvort samspil sé á milli fólksfækkunar og þingmannafjölda.
Dvalarheimilið: Dvalarheimili hefur verið í byggingu undanfarin ár og í ár hefur ekkert verið unnið í húsinu vegna fjárskorts. Um það mætti spyrja hvort stjórnin hefur verið nógu vakandi um að þoka þessu máli áfram. Stjórn bygginganefndar er eingöngu skipuð áhugafólki og sum verkefni eru það stór að varla er hægt að búast við að það sé unnið eingöngu af áhugafólki í stopulum frístundum. Formaður stjórnar er Valdimar Hreiðarsson sóknarprestur.
Reykhólaprestakall: Um jólin var messað á Reykhólum og voru um 70 manns í kirkju þrátt fyrir leiðinlegt veður. Um þessi áramót lætur sóknarpresturinn Valdimar Hreiðarsson af störfum eftir 5 ára starf. Fimm kirkjur fylgja prestakallinu og er Múlahreppur í eyði svo að þar er ekki messað. Flateyjarsókn hefur verið þjónað af prestinum í Stykkishólmi, en presturinn þar er ættaður úr Flateyjarhreppi. Þá eru þrjár kirkjur eftir og greiðar samgöngur á milli þeirra.
Vegur yfir Gilsfjörð: Barðstrendingar binda miklar vonir við veg og brú yfir Gilsfjörð og að það mál verði von bráðar tekið upp í alvöru. Ef til vill þykja það ekki fréttir að í Austur-Barðastrandarsýslu er ekki þverhandarbreidd af vegi með bundnu slitlagi. Hins vegar gerðist það á árinu, að Vegagerð ríkisins sá sér ekki fært að hafa hér lengur vegaverkstjóra og er hann nú búsettur á Patreksfirðí.
Heilsufar: Heilsufar hefur yfirleitt verið gott og farsóttir ekki gert neinn usla. En sem fyrr er læknishéraðinu þjónað úr Búðardal og er því sinnt þaðan eins vel og kostur er. Hins vegar er það staðreynd, að þegar læknishéraðið var lagt niður, þá var sú von gerð að engu að hér risi upp sterkt og öflugt byggðarlag. Þar skipta skoðanir manna í heilbrigðiskerfínu engu.
Skáld: Eins og alþjóð er kunnugt, þá reistu aðdáendur Matthíasar Jochumssonar honum veglegan minnisvarða að Skógum. Nú vill Hannibal Valdimarsson fyrrverandi ráðherra að áfram verði haldið, en hann hefur haft mikinn áhuga á því að Jóns Thoroddsen, Matthíasar og Gests Pálssonar verði minnst á verðugan hátt. Hannibal hefur stofnað skáldasjóð við Samvinnubankann í Króksfjarðarnesi sem hefur númerið 222022 og geta því allir sem því máli vilja leggja lið snúið sér þangað. Stofnfé er 5000 krónur. Engin formleg stjórn er til fyrir sjóðinn og mun það mál verða afgreitt á næsta sýslunefndarfundi.
Aðrar fréttir: Ég hef stundum getið frétta er mér hafa borist frá frændum okkar Norðmönnum og eru yfirleitt ekki í íslenskum fjölmiðlum. Í litlu þorpi sem er í orðsins fyllstu merkingu sveitaþorp er skóli með öllum bekkjardeildum. Þetta litla þorp heitir Ljördalen og á stríðsárunum var þar hjálparstöð til þess að koma flóttafólki yfír til Svíþjóðar. Skólinn þeirra er mjög fullkominn og til fyrirmyndar um allan aðbúnað. Í vetur eru þar 68 nemendur og 11 kennarar. Af Ljördalen-skóla á Heiðmörk gæti íslenskt dreifbýlisfólk mikið lært.
Fólkið sem á þarna heima er bændafólk og lifir á skógarhöggi og kvikfjárrækt, en í fyrra drápu úlfar fyrir því sauðfé og í ár gerði skógarbjörninn usla hjá þeim.
Frá Heiðmörkinni skal svo vikið að Setesdalen á Þelamörk. Í blaði þeirra segir frá því að kennarar séu óánægðir með kjör sín og formaður kennarafélagsins segir að hann vilji ekki trúa því að fólk vilji ekki verðleggja vinnu uppalenda og kennara hærra.
Frá 1963 til 1983 hafa laun kennara stigið um 380 til 400% en laun iðnaðarfólks um 515%. Norskir kennarar verða að vinna í 10 mánuði en hér í 9 mánuði. Vinnutími hjá þeim er styttri svo að heildarvinnuálag gæti verið svipað. Kaup kennara sem eru búnir að vinna sér full réttindi eru rúmar 50 þúsund krónur en hér 33 þúsund. Þrátt fyrir þennan mikla mun verða norskir kennarar að vinna á kvöldin og um helgar til þess að lifa.
Nýlega er komin út plata hjá þeim í Setesdalen og er það draumkvæði á miðaldamáli Þelamerkurbúa og til gamans kemur hér fyrsta vísan og ég held að enga orðabók þurfi til þess að skilja hana:
Vil du meg lyða, eg kveða kan
um einkvan nýta drengin,
alt um han Olaf Ástason,
sem heve sovið sá lengi.
Nú heilsar nýtt ár með nýjar vonir. Gleði og sorgir munu vitja okkar. Það er lífsins gangur. Lesendum sendi ég kveðjur á árinu 1986.
Sveinn Guðmundsson
________________
Við þessa samantekt hefur einkum verið notast við hinn ómetanlega vef timarit.is. Helgi Bjarnason blaðamaður á Morgunblaðinu útvegaði myndir nr. 1 og 2. Hann var í miklum og góðum samskiptum við Svein og aðra fréttaritara og greindi þeim er þetta skrifar frá fundinum árið 1993, þegar Sveinn rifjaði upp fréttina umtöluðu um snjóþyngslin vestur í Reykhólasveit, sem Mogginn birti um hásumar.
Hlynur Þór Magnússon