Úrskurður varðandi vegamálin: Sama leið áfram
Uppfært 10.09. Ögmundur Jónasson ráðherra samgöngumála hefur kveðið upp þann úrskurð í hinu langvinna þrætumáli um leiðarval í Gufudalssveit í Reykhólahreppi, að nýr vegur skuli lagður eftir því sem næst núverandi leið. Þetta merkir að áfram verður farið yfir Hjallaháls og Ódrjúgsháls en ráðherra kveðst vilja skoða möguleika á göngum undir Hjallaháls. Hann segir B-leið með lagningu vegar um Teigsskóg við Þorskafjörð úr sögunni þar sem framkvæmdaferlið yrði of langt en nauðsynlegt sé að fá vegbætur sem allra fyrst.
Þetta kom fram í fréttum Ríkisútvarpsins síðdegis í dag.
Meðfylgjandi mynd sem fengin er á vefnum vegur.is (um samgöngumál á Vestfjörðum) tók Jónas Guðmundsson sýslumaður í Bolungarvík. Þar sér yfir Hjallaháls milli Þorskafjarðar vinstra megin á myndinni og Djúpafjarðar hægra megin. Smellið á myndina til að stækka hana.
Varðandi nýja leið hafa helst verið í umræðunni leið B út með Þorskafirði og þverun yfir mynni Djúpafjarðar og Gufufjarðar (ofarlega til hægri á myndinni) og leið A með þverun yfir mynni Þorskafjarðar milli Reykjaness og Skálaness (efst á myndinni).
Lesendur þessa vefjar eru hvattir til að láta í ljós skoðanir sínar á þessu máli í athugasemdakerfinu hér að neðan.
Uppfært / viðbót 10.09.:
Gunnlaugur Pétursson verkfræðingur, sem er þaulkunnugur þessum málum, hafði samband við vefinn og benti á loftmyndir með veglínum varðandi 2. áfanga leiðar D í gögnum Vegagerðarinnar. Þær hafa nú verið settar hér inn (myndir 2 og 3). Líka má skoða þær hérna og hérna margfalt stærri og skýrari á pdf-formi (notið prósentureitinn allra efst í glugganum til að stækka). Gunnlaugur vekur athygli á því, að samkvæmt því leiðarvali sem ráðherra hefur nú ákveðið verður sjálft vegstæðið að litlu leyti hið sama og nú er þótt sama leið sé farin í meginatriðum.
Gunnlaugur lagði áherslu á, að úrskurður ráðherra í gær snerti eingöngu 2. áfanga leiðar D, þ.e. leiðina milli Þórisstaða við vestanverðan Þorskafjörð og Krakár á Skálanesi (hvíta línan á fyrri loftmyndinni). Þar er því alls ekki um að ræða þverun Þorskafjarðar skammt innan við Bjarkalund og yfir að Þórisstöðum (rauð lína). Ekkert bendir til annars en að áfram verið farið inn fyrir botn fjarðarins.
Gunnlaugur segir til frekari skýringar (athugið að ljósbrúna línan sem hann nefnir sést illa eða alls ekki nema kortið sé stækkað eins og fyrr er getið):
Fyrri teikningin sýnir alla leiðina (hvít lína). Ef rýnt er í kortið má sjá hvernig núverandi vegur liggur (ljósbrún lína). Alla leið vestan frá flugvellinum á Melanesi að vestanverðum Ódrjúgshálsi liggur leið D talsvert (stundum verulega) sunnan (eða utan) við núverandi veg. Þar krossar leið D núverandi veg og liggur síðan norðan við hann allt austur í vestanverðan Djúpafjörð. Þar liggja þeir saman á um 500 metra kafla. Síðan liggur leið D sunnan (eða utan) við núverandi veg alveg austur að efstu beygjunni á Hjallahálsi vestanverðum. Á Hjallahálsi er leið D í núverandi vegstæði (enda einungis um 27-28 ára gamalt). Með göngum undir Hjallaháls yrði leið D því afar lítið í núverandi vegstæði. - Á síðari teikningunni sjást tveir möguleikar á leið D í Gufufirði. Það er gula línan sem hefur verið í umræðunni. Þarna sést núverandi vegur betur.
Steinunn Ó. Rasmus, fstudagur 09 september kl: 18:27
Í fréttunum áðan sagði Ögmundur að það ætti að leggja vegi á láglendi, þess vegna væru jarðgöng undir Hjallaháls í myndinni. Er Ódrjúgsháls þá orðinn láglendi?
Hvað er eiginlega verið að tala um? Ögmundur hefur greinilega enga hugmynd um hvernig er að fara þessa fjallvegi daglega.
Kv. Steinunn