Tenglar

9. september 2011 |

Úrskurður varðandi vegamálin: Sama leið áfram

Séð yfir Hjallaháls með núverandi vegi. Ljósm. Jónas Guðmundsson.
Séð yfir Hjallaháls með núverandi vegi. Ljósm. Jónas Guðmundsson.
1 af 3

Uppfært 10.09. Ögmundur Jónasson ráðherra samgöngumála hefur kveðið upp þann úrskurð í hinu langvinna þrætumáli um leiðarval í Gufudalssveit í Reykhólahreppi, að nýr vegur skuli lagður eftir því sem næst núverandi leið. Þetta merkir að áfram verður farið yfir Hjallaháls og Ódrjúgsháls en ráðherra kveðst vilja skoða möguleika á göngum undir Hjallaháls. Hann segir B-leið með lagningu vegar um Teigsskóg við Þorskafjörð úr sögunni þar sem framkvæmdaferlið yrði of langt en nauðsynlegt sé að fá vegbætur sem allra fyrst.

 

Þetta kom fram í fréttum Ríkisútvarpsins síðdegis í dag.

 

Meðfylgjandi mynd sem fengin er á vefnum vegur.is (um samgöngumál á Vestfjörðum) tók Jónas Guðmundsson sýslumaður í Bolungarvík. Þar sér yfir Hjallaháls milli Þorskafjarðar vinstra megin á myndinni og Djúpafjarðar hægra megin. Smellið á myndina til að stækka hana.

 

Varðandi nýja leið hafa helst verið í umræðunni leið B út með Þorskafirði og þverun yfir mynni Djúpafjarðar og Gufufjarðar (ofarlega til hægri á myndinni) og leið A með þverun yfir mynni Þorskafjarðar milli Reykjaness og Skálaness (efst á myndinni).

 

Lesendur þessa vefjar eru hvattir til að láta í ljós skoðanir sínar á þessu máli í athugasemdakerfinu hér að neðan.

 

Uppfært / viðbót 10.09.:

 

Gunnlaugur Pétursson verkfræðingur, sem er þaulkunnugur þessum málum, hafði samband við vefinn og benti á loftmyndir með veglínum varðandi 2. áfanga leiðar D í gögnum Vegagerðarinnar. Þær hafa nú verið settar hér inn (myndir 2 og 3). Líka má skoða þær hérna og hérna margfalt stærri og skýrari á pdf-formi (notið prósentureitinn allra efst í glugganum til að stækka). Gunnlaugur vekur athygli á því, að samkvæmt því leiðarvali sem ráðherra hefur nú ákveðið verður sjálft vegstæðið að litlu leyti hið sama og nú er þótt sama leið sé farin í meginatriðum.

 

Gunnlaugur lagði áherslu á, að úrskurður ráðherra í gær snerti eingöngu 2. áfanga leiðar D, þ.e. leiðina milli Þórisstaða við vestanverðan Þorskafjörð og Krakár á Skálanesi (hvíta línan á fyrri loftmyndinni). Þar er því alls ekki um að ræða þverun Þorskafjarðar skammt innan við Bjarkalund og yfir að Þórisstöðum (rauð lína). Ekkert bendir til annars en að áfram verið farið inn fyrir botn fjarðarins.

 

Gunnlaugur segir til frekari skýringar (athugið að ljósbrúna línan sem hann nefnir sést illa eða alls ekki nema kortið sé stækkað eins og fyrr er getið):

 

Fyrri teikningin sýnir alla leiðina (hvít lína). Ef rýnt er í kortið má sjá hvernig núverandi vegur liggur (ljósbrún lína). Alla leið vestan frá flugvellinum á Melanesi að vestanverðum Ódrjúgshálsi liggur leið D talsvert (stundum verulega) sunnan (eða utan) við núverandi veg. Þar krossar leið D núverandi veg og liggur síðan norðan við hann allt austur í vestanverðan Djúpafjörð. Þar liggja þeir saman á um 500 metra kafla. Síðan liggur leið D sunnan (eða utan) við núverandi veg alveg austur að efstu beygjunni á Hjallahálsi vestanverðum. Á Hjallahálsi er leið D í núverandi vegstæði (enda einungis um 27-28 ára gamalt). Með göngum undir Hjallaháls yrði leið D því afar lítið í núverandi vegstæði. - Á síðari teikningunni sjást tveir möguleikar á leið D í Gufufirði. Það er gula línan sem hefur verið í umræðunni. Þarna sést núverandi vegur betur.

 

Athugasemdir

Steinunn Ó. Rasmus, fstudagur 09 september kl: 18:27

Í fréttunum áðan sagði Ögmundur að það ætti að leggja vegi á láglendi, þess vegna væru jarðgöng undir Hjallaháls í myndinni. Er Ódrjúgsháls þá orðinn láglendi?
Hvað er eiginlega verið að tala um? Ögmundur hefur greinilega enga hugmynd um hvernig er að fara þessa fjallvegi daglega.
Kv. Steinunn

Sig.Torfi, fstudagur 09 september kl: 18:45

Ég veit ekki hvort ég á að hlæga eða gráta!!! Ráðamenn þjóðarinnar vilja fara C leið sem þíðir að það hafa sama vegstæði bara malbika yfir hálsana....

Alveg með ólíkindum að árið 2011 skuli með enn vera með hugmyndir um að gera fjallvegi, sérstaklega þegar aðrar leiðir eru í boði...

LEIÐ C ER ENGUM TIL HAGSBÓTA!!!!!

Allavega, í dag er dagurinn til að flagga í hálfa stöng.... þannig er það bara.

Jón Halldórsson., fstudagur 09 september kl: 18:46

SKANDALL VEGAGERÐARÁÐHERRA. Skömm Ögmundar var að koma í ljós í 4 fréttunum nú áðan, hann hefur valið ÓSÁTTALEIÐINA - gömlu leiðina með göng undir Hjallaháls. Þetta kallast ekki sáttaleið því miður.

Þorgeir Samúelsson, fstudagur 09 september kl: 20:43

Ég held að menn sjái ekki húmorinn í þessari ákvörðun ráðherra, að velja óbreytt ástand, hvað segja nú umhverfissinnar bæði hér og annarstaðar, þegar skeringar í kílómetra vís líta dagsins ljós bæði á Hjallahálsi og Ódrjúgshálsi, það verða örugglega ekki kölluð landspjöll...það verður flokkað sem óumflýjanleg nauðsyn...og verður nú gaman að fylgjast með heimatilbúnum græningjum hér sem hafa haft sig í frammi við að ákvarða hvað skuli og megi gera. Þessi samgöngu staða Vestfjarða kjálkans var ákvörðuð og ráðin, með tilkomu fjallvegagerðar úr Djúpi yfir á Strandir, þá var teningunum kastað og ákveðið að fjallvegir hentuðu þessum landshluta best, og hefur ekki verið svo í framhaldinu? Jú endur gerður vegur á Klettshálsi, nýr vegur um Arnköttluheiði, Dynjandisheiði, Kleyfaheiði. Þetta nær allt aftur til 1974 þessi vanhugsaða vegagerð á Vestfjörðum. En það voru ekki núverandi ráðherrar og þingmenn sem réðu för...heldur forverar þeirra...og nú spyr maður sig: Verður engin þróun í tímans rás, af fenginni reynslu misheppnaðra framkvæmda? Guðni Ágústsson fyrverandi, þingmaður, lýsti mjög vel píslargöngu stjórnmálaflokka og þingmanna...
ónefndur flokkur...."var eins og strædó sem menn gengju inn í að framan, og út að aftan"
Skarplega mælt og ígrundað. Þetta held ég að sé einkenni allra stjórnmála afla að forða sér út bakdyramegin þega þor og kjark þrýtur.
Góðir íbúar.... Förum A leið það er framtíðinn komið árið 2011.

kv
Þorgeir

Guðjón D. Gunnarsson, fstudagur 09 september kl: 22:42

Sorglegt.

Björk Stefánsdóttir, laugardagur 10 september kl: 08:36

Þetta er hræðilegt

Gunnlaugur Pétursson, laugardagur 10 september kl: 13:40

Sæl öll. Það var spurt að því hér að framan hvort Ódrjúgsháls og þá vegur yfir hann (í um 150 m hæð) væri láglendi. Svarið er já, vegna þess að láglendi er skilgreind 0-200 m yfir sjó, sjá t.d. orðbók Menningarsjóðs og skilgreiningar í ýmsum greinum, sem finna má á netinu. - Í orðabókinmni er hálendi skilgreint fyrir ofan 200 m, en þó er hæðin 200-400 m stundum kölluð "hálendisbrún" og hálendi þá ofan 400 m, einkum í skýrslum um lífríki landsins. - Bestu kveðjur - GPé

Sig.Torfi, laugardagur 10 september kl: 15:19

ágætis útskýringar hjá Gunnlaugi, en því miður algert kjarfæði.....

Þeir félagar Ögmundur og hann þurfa greinilega að keyra Ódrjúgsháls...

Þar að auki væri þessum fjármunum betur varið í að reisa tónlistarhús og úti Flatey en að byggja upp veg yfir þessa hálsa...

Að fara Leið C eru ekki vegabætur...

Dagný Stefáns, laugardagur 10 september kl: 17:50

Óttalegur barnaskapur er þetta að velja þessa C leið sem eg vona að verði ekki , það kostar svo sitt að halda svona vegi opnum að vetri til fyrir utan hættuna að vera þarna á ferð í blindbyl og hálku. Nei ef litið er til framtíðar er A leiðin það eina retta , vona bara að sú verði raunin.

Gunnar Guðmundsson, laugardagur 10 september kl: 20:58

Ég er einn þeirra sem fylltist nokkurri bjartsýni þegar innanríkisráðherra lýsti því yfir í vetur að ,,forgangsverkefni í samgöngumálum í landinu" væri að bæta óásættanlegar samgöngur á Vestfjörðum. Ég held að engum hafi dulist að ráðherra átti við brýnar endurbætur á rúmlega hálfrar aldar samgöngumynjum sem um það bil helmingur leiðarinnar frá Þórisstöðum í Þorskafirði til Þingeyrar skartar. Yfirlýsing sama ráðherra um að höggva þyrfti á hnútinn um val á framtíðar veglínu í Gufudalssveit dró ekki úr meintri bjartsýni. En svo kemur niðurstaðan eftir þrjá fjölmenna samráðsfundi með ólíklegustu hagsmunaaðilum málsins. Til hvers þetta sjónarspil kringum málið. Niðurstaðan er í anda stefnunnar: - ekki-gera-neitt. Lausninni sem átti að flýta er skúrrað áratug eða meira fram. ákvörðuninni er í raun frestað um óákveðinn tíma. Alvarlegri neikvæðri byggða- og samfélagsþróun á Vestfjörðum er gefið langt nef. Leiðin um Hjallaháls mun áfram veita okkur vegfarendum ómælda ánægju og gleði. Niðurstaða ráðherrans er: að tré og fuglar njóta forgangs umfram hagsmuni íbúa á Vestfjörðum - einkum sunnanverðum. Ég á ekki eitt einasta orð yfir svona ráðslagi eða eigum við heldur að kalla vinnubrögðin skollaleik.

Þorgeir Samúelsson, laugardagur 10 september kl: 23:26

Gunnlaugur vekur athygli á því, að samkvæmt því leiðarvali sem ráðherra hefur nú ákveðið verður sjálft vegstæðið að litlu leyti hið sama og nú er þótt sama leið sé farin í meginatriðum... Tilvitnun lýkur! Bíddu nú við...og látum okkur sjá ..eins og maðurinn sagði... er ekki Ragnar Reykás að skrifa þennan texta...vegastæði að litlu leyti hið sama og nú er...þarf þá ekki að fara í nýtt umhverfismat hjá "Grænhól" ehf ..til að fá að leggja nýja veglínu? Er þá ekki verið að vinna sömu spöll á Djúpafirði og Ódrjúgshhálsi, eins og á Þorskafirði...?? Mér er ekki um megn að skylja þessi rök eða öllu heldur vitleysu....Jarðgöng undir Hjallaháls verða aldrei lögð...jarefni voru ransökuð þar... með tiliti til jargangna 1979 til 80....fúið berg sem hentar ekki til jarðgangna...aftur á móti var Klettsháls kjörin til jarðgangnagerðar....og hefði betur verið að menn hér hefðu þrýst á að hrynda því í framkvæmd. Kókbotnaðir verkfræðingar úr Reykjavík ættu að búa sig upp í vetur og reyna á sjálfum sér að fara yfir þessa fjallvegi...sjá með eygin augum hvað er verið að tala um hér....ég vann við snjómokstur frá 1976 til 1984 og veit því alveg hvernig veður eru á þessum svonefndu láglendisvegum...þarf ekki ölstofu gæja til að segja mér það.
Með kveðju
Þorgeir

Gunnlaugur Pétursson, sunnudagur 11 september kl: 10:43

Sæl öll.

Hér að ofan var spurt hvort ekki þurfi af fara fram umhverfismat á leið D.
Ég vil benda á að umhverfismat hefur þegar farið fram á leið D, sjá:
http://www.skipulagsstofnun.is/media/attachments/Umhverfismat/738/2005040072.pdf

Þar stendur (á bls.55):

Fallist er á leið D í 2. áfanga með eftirfarandi skilyrðum:
1. Vegagerðin tryggi að vatnsskipti haldist óbreytt innan þverana Djúpafjarðar og
Gufufjarðar og skulu mælingar á seltu fara fram áður en framkvæmdir hefjast
og eftir að framkvæmdum er lokið.
2. Framkvæmdir við þverun Gufufjarðar skulu ekki fara fram í maí þegar
rauðbrystingur nýtir innfjarðarleirurnar til fæðuöflunar.


Virðingarfyllst
Gunnlaugur Pétursson

Eyvindur Magnússon, sunnudagur 11 september kl: 13:20

Skelfilegasta niðurstaðan staðreynd og vonbrigðin gríðarleg, enn og aftur erum við sem hér búum flokkaðir í verri flokk en aðrir Íslendingar. Legg til að við hringjum í hugsanlegan Grímsstaðarbónda og spyrjum hann hvort hann eigi vin sem er til í að byggja litla sjávarfallavirkjun og í staðinn flöggum við rauðu alla daga.

Eggert Stefánsson, sunnudagur 11 september kl: 16:58

Enn og aftur vonbrigði og meiri vonbrigði. Er það ekki makalaust hve illa gengur að ganga í það að gera viðunandi veg milli Bjarkalundar og Flókalundar? Að ég nú ekki tali um milli Flókalundar og Dýrafjarðar. Virðist líta svo út (eins og er a.m.k.) sem fáeinum mönnum sé að takast slá út af borðinu bestu leiðina, eftir að hafa tafið framkvæmdir í nokkur ár. Verður forvitnilegt að sjá hvað sveitarstjórnir á Vestfjörðum og Fjórðungssambandið segja við þessum nýjustu tíðindum. Er annars sammála Eyvindi hér að ofan, ekki síst þetta með að hringja í hugsanlegan Grímstaðarbónda.

Gunnbjörn Óli Jóhannsson, sunnudagur 11 september kl: 18:37

Skelfileg niðurstaða!Og Ráðherrann búinn að gefa nokkra vonir um að láta veg og öryggissjónarmið ráða ferð,það er að segja gera Láglendisveg.Nú held ég að þessi leið um Teigskóg sé full reynd hún verður ekki farinn.´Göng undir Hjallaháls og lagfæring á Ódrjúgshálsi er illa farið með peninga og tímaskekkja.Að mínu mati held ég að það sé bara einn kostur í málinu það er að fara leið A og fara af fullum krafti í þá leið,ekki vera að eyða tima og fjármunum í meira þras við þetta afturhaldslið.En þá er ein spurning, mun Gunnlaugur og hans líð hafa eitthvað við A leiðina að athuga?? eða lætur hann þetta gott heita í bili

Með kveðju Gunnbjörn 'Oli Jóhannsson

Vestfirðingur, sunnudagur 11 september kl: 22:27

Þessi ákvörðurn ætti ekki að koma neinum á óvart. Nú eru þeir sem ekki fengu að eigin dómi nógu mikla peninga fyrir annars verðlaust nes búnir að tapa þeim öllum,
sem betur fer.
En það sem verra er að líf og limir okkar sem byggjum þetta landsvæði er ekki metin á við nokkrar kræklóttar hríslur. Sem eru ekkert merkilegri en hrísið sem þarna vex um allar hlíðar. Það eitt og sér lýsir mest veruleikafyrringunni hjá lattelepjandi liðinu úr 101 Reykjavík sem aldrei hefur migið norðan við Elliðaár.

Einhvern tíma hefðu Vestfirðingar notað sér það að kunna fleira en faðirvorið eftir að hafa verið dregnir á eyrunum í fleiri ár.
Það er þungur hugur í mörgum hér fyrir vestan út af þessum úrskurði sem örugglega var fyrir löngu klár í innanríkisóráðinu.
Sveitarstjórnarmenn ættu að rukka ráðherrakvikindið um ferðakostnað og vinnutap vegna þessa.( Gagnslausar ferðir með tilheyrandi kostnaði fyrir sveitarfélögin).

Virðing okkar sem byggjum þetta landsvæði fyrir ráðaliðinu í Reykjavík var ekki mikil fyrir og fór í frost við þetta útspil.
Sanngjarnt væri meðan við bíðum eftir samgöngubótum væri olíugjald og önnur bifreiðagjöld til ríkisins felld niður hjá okkur sem lögheimili eigum á sunnanverðum Vestfjörðum.

Bára Pálsdóttir, mnudagur 12 september kl: 00:27

Ég er svo sammála þér Vestfirðingur sem skrifar hér að ofan.og þessi Gunnlaugur Pétursson ætti að skammast sín að halda hér fólki á þessu svæði í gíslingu,bara vegna eiginn hagsmuna og frekju.Vona að okkur takist að fá láglendisveg,þó að Gunnlaugi finnist Hjallaháls og Ódrúgsháls séu láglendisvegir þá sýnir það hverslags hugsunargangur er hjá þessum manni og honum er svo nákvæmlega sama um líf og limi okkar sem þurfum að keyra þessi vegi til þess að komast suður héðan úr Vesturbyggð. Bara að hann fái að komast í sinn sumarbústað.Það ætti að taka þessa jörð eignarnámi eins og gert er annastaðar á landinu og leyfa þá fólki að njóta þessa kjarrs sem þarna á víst að vera.Við Vestfirðingar gefumst ekki upp svo auðveldlega fyrir svona lopapeysu,lattelepjandi liði úr Reykjavík. Nú erum við hér á þessu svæði orðin virkilega reið og það verður til þess að það verður góð samstaða um næstu skref.

Einar Örn Thorlacius fyrrv. sveitarstjóri Reykhólahrepps, mnudagur 12 september kl: 08:53

Ég bjó á Reykhólum í fjögur ár og þekki bæði sumar- og vetrarfæri í Gufudalssveitinni. Því var haldið fram við mig í minni sveitarstjóratíð af sumarhúsafólki i Gufudalssveit að hálsarnir tveir (Hjallaháls og Ódrjúgsháls) væru "kettlingar" miðað við t.d. Öxnadalsheiði og það er alveg rétt að þeir eru ekki háir. En það er bara þannig að á þessari breiddargráðu þarf ekki að fara marga tugi metra upp í loftið til að komast í allt annað veðurfar og færð en á láglendi niðri við sjó. Ég er vissulega náttúruverndarsinni en mér er líka annt um íbúana og alla þá sem ferðast þurfa um Gufudalssveitina í slæmum vetrarveðrum.
Mér líst ekkert á þetta útspil Ögmundar satt að segja. Hann er á einhverjum villigötum maðurinn í þessu máli.

Gestur, mnudagur 12 september kl: 09:12

Hvað með fólk sem er búsett á sjálfu svæðinu? er leið A samgöngu bót fyrir það?

Gunnbjörn Óli Jóhannsson, rijudagur 13 september kl: 10:36

Ætlar Gunnlaugur ekki að svara því hvort hann ætli að láta af þessu persónulega stríði við fólkið á sunnanverðum vestfjörðum eða ætlar hann að halda áfram????

Hrefna Jónsdóttir, rijudagur 13 september kl: 19:08

Þetta er fáránlegt.. eiginlega ekki hægt að kalla það neitt annað. Þetta er ekki samgöngubót þetta er kjaftæði! Við erum bara EKKI svona auðtrúa við vitum vel að þetta bætir ekkert, þetta eru ekki vetrarvegir og við fáum aldrei þessi jarðgöng! Þetta eru hálendisvegir það er ekki spurning um það, þó Ódrjúgsháls nái ekki bókstaflega inná þá skilgreiningu hefur hann öll einkenni hálendisvegar. Það er löngu orðið ljóst að með sömu leið áfram er ekki hægt að halda veginum opnum allan veturinn. Það er ekki boðlegt. Með þessari leið er verið að gefa skít í Vestfirðinga!

Er sammála þeim sem hafa nú þegar sagt það að Gunnlaugur og Ögmundur ættu að prufa að fara yfir þessa hálsa um hávetur!

Leið A er vissulega samgöngubót fyrir fólkið sem er búsett á svæðinu þó hún sé ekki í formi vegar sem liggur sem næst bæjarhlaðinu. Það væri örugg leið sem væri opin allt árið en svo er ekki með leið C. Það hlýtur einnig að vera hagur allra í sveitarfélaginu að samfélagið í heild auðgist og hljóti arðbæra framtíð.
Leið B er ekki möguleiki vegna umhverfislaga og það eru engar líkur á jarðgöngum á svæðinu. Aðrar leiðir eru ýmist ómögulegar eða úreltar eins og leið C því er leið A eina leiðin sem bætir samgöngur verulega.

Við eigum ekki að þurfa að hlusta á þennan fíflagang! Íbúar á Vestfjörðum verða að standa saman og fá A-leiðina í gegn!

Ingibjörg Guðrún Viggósdóttir, mivikudagur 14 september kl: 18:46

Það er hörmulegt að fá ekki b leiðina vestur og sorglegt, ég stend með ykkur, það er litið á vestfirðinga sem annarsflokks fólk, Ögmundur á að skammast sín, hann þekkir greinilega ekki til hvað vegirnir geta verið slæmir, vetraveðrin og snjórinn.
Já hvað kjaftæði er þetta með göng, það kallast að lofa upp í ermina á sér, það verður aldrei setta göng þarna næstu 50 árinn, maðurinn er kjáni.

EVA, fimmtudagur 15 september kl: 11:40

Leið A er ekki samgöngubót fyrir fyrir alla íbúa svæðisins... hvað með þá sem búa í Djúpadal? þeir eru þá fastir með heillangan afleggjara og á milli tveggja fjallvega!... ekki býst ég við að þessi langi "afleggjari" verði lagaður fyrir þau! börnin þurfa áframm yfir slæman fjallveg til að komast í leiksskólan! get ekki sagt að ég styðji leið A

Guðrún Guðmundsdóttir, fstudagur 16 september kl: 08:10

Ég held að þingmenn ættu að ferðast með flutningabílunum eða skólabílunum sem þurfa að fara þessa leið alla daga og sjá hvernig honum líður eftir ca viku, hvað þá mánuð yfir vetrartímann. Hugsa að þeir þyrðu ekki einu sinni uppí bílinn suma dagana sem þeir keyra. Skil ekki afhverju svona ákvarðanir eru teknar um hásumar, vita þeir ekki að við erum á Íslandi og hér kemur vetur??? En fólkið og hvað þá börnin sem þurfa að fara þessa leið á hverjum degi, (börnin) tvisvar á dag eiga að líða fyrir þekkingarleysi þingmanna. Það er auðvitað skömm.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31