Úrvalshrútar: Ljúfur frá Árbæ, Kroppur frá Bæ
Hrútaskráin er eitt vinsælasta ritið í sveitum landsins þessa dagana, segir í Morgunblaðinu á föstudag. „Alltaf er verið að reyna að gera betur, það er það skemmtilega við kynbæturnar, reyna að sameina alla kostina í sömu kindinni. En við höfum aldrei náð hinum fullkomna hrúti,“ segir Lárus Birgisson, ráðunautur hjá Búnaðarsamtökum Vesturlands og umsjónarmaður Sauðfjársæðingastöðvar Vesturlands í Borgarnesi í samtali við blaðið.
Nýútkomna sameiginlega hrútaskrá sæðingastöðvanna í Borgarnesi og í Laugardælum má finna hér á bondi.is. Þetta er vinsælt rit sem meðal annars má sjá á því að heimsóknir á vef Búnaðarsambands Suðurlands tvöfaldast ávallt fyrstu vikuna eftir að skráin er birt þar. Áætlað er að prentaða útgáfan komi út á miðvikudag.
Í hrútaskránni eru ítarlegar upplýsingar um alla hrútana og töflur um niðurstöður lambhrútaskoðunar og kynbótamats. Þar geta menn valið sér þá eiginleika sem þeir telja henta fyrir sinn stofn.
Tveir kollóttir úr skránni eru á myndunum sem hér fylgja og tengjast á tvo vegu frekar en einn ...