Tenglar

30. apríl 2011 |

Útivistarhelgin um Jónsmessu að mestu frágengin

Á Vaðalfjöllum á Jónsmessunótt 2008. Ljósmynd Óskar Steingrímsson.
Á Vaðalfjöllum á Jónsmessunótt 2008. Ljósmynd Óskar Steingrímsson.
Harpa Eiríksdóttir ferðamálafulltrúi Reykhólahrepps í samvinnu við sérfróða og reynda leiðsögumenn er komin vel á veg að skipuleggja útivistarhelgi í Reykhólahreppi um Jónsmessuleytið, eins og hér var á sínum tíma greint frá að væri í bígerð. Lagt verður af stað í fyrstu gönguna seint á fimmtudagskvöldi 23. júní og verið uppi á Vaðalfjöllum þegar Jónsmessunóttin gengur í garð. Aðrar lengri og skemmri göngur verða dagana á eftir.
 
Enn er þó eftir að ákveða og skipuleggja einhverjar fleiri en þær eiga að liggja fyrir fljótlega. Útivistarhelginni lýkur sunnudaginn 26. júní með hjóladegi. Dagskráin í þeirri mynd sem þegar liggur fyrir fer hér á eftir ásamt verðskrá neðst. Fyrir utan gönguferðirnar er stefnt að varðeldi við Bjarkalund að kvöldi Jónsmessudags.

 

 

Jónsmessunæturganga á Vaðalfjöll

 

Leiðsögumaður Gauti Eiríksson. Mæting við Hótel Bjarkalund kl. 22.45 að kvöldi 23. júní. Fólk fer á eigin bílum áleiðis upp að Vaðalfjöllum. Vegurinn upp eftir er fær flestum fólksbílum ef varlega er farið. Síðan er gengið að Vaðalfjöllunum og upp. Þaðan er mjög gott útsýni og má í góðu skyggni sjá yfir í fimm sýslur. Vaðalfjöll er tveir fornir gígtappar úr blágrýtisstuðlabergi, sem standa um 100 metra upp úr umhverfinu. Áætlað er að vera þar uppi um miðnættið.

 

Vegalengd göngunnar er 2-4 km fram og til baka, eftir því hvað fólk keyrir langt upp eftir. Hækkun um 200-300 m. Leiðin upp á sjálf Vaðalfjöllin er frekar brött en þó er ekki um neitt klifur að ræða. Fólk fer síðan heim aftur þegar því hentar.

 

 

Á Jónsmessudag, föstudaginn 24. júní, verða tvær stuttar göngur í boði:

 

Gufudalsháls

 

Leiðsögumaður Þröstur Reynisson. Mæting við Neðri-Gufudal kl. 10.00. Þar er sameinast í bíla og ekið að Galtará við Kollafjörð. Þaðan er gengin gamla gatan yfir Gufudalshálsinn og komið niður í Gufudal. Áætluð lok um kl. 14.00.

 

Vegalengd um 4-5 km. Hækkun rúmir 300 m. Gott að hafa með sér létt nesti.

 

Skálaneshraun

 

Leiðsögumaður Þröstur Reynisson. Mæting hjá Skálanesi kl. 15.00. Gengið um Skálaneshraunið sem er mjög fallegt vestfirskt „hraun“. Áætluð lok um kl. 17.00.

 

Vegalengd um 2-3 km. Lítil hækkun.

 

 

Laugardaginn 25. júní verður löng ganga:

 

Hofsstaðir - Laugaland - Staður

 

Leiðsögumaður Gauti Eiríksson. Lagt af stað kl. 10.00 frá Hofsstöðum. Afleggjarinn þangað er rétt vestan við Bjarkalund. Frá Hofsstöðum verður farið gangandi út með Þorskafirðinum. Á leiðinni verður numið staðar á markverðum stöðum en á meðal þeirra eru eyðibýlin Hlíð og Laugaland. Þegar í Laugaland er komið verður boðið upp á kjötsúpu, sem er innifalin í fullu verði á ferðinni. Þegar fólk skráir sig í gönguna þarf að taka fram hvort það vilji kjötsúpu eða ekki.

 

Ekki er bílvegur þessa leið en hægt er að aka frá Stað og Árbæ yst á Reykjanesinu inn með Þorskafirðinum og inn að Laugalandi. Sá vegur er samt ekki fyrir fólksbíla en í góðu lagi fyrir jepplinga. Fólk getur ráðið því hvort það lætur sækja sig að Laugalandi eða gengur út að Stað. Leiðsögn lýkur við kirkjuna á Stað. Áætluð lok um kl. 16.00.

 

Þetta er létt ganga og hæðaraukning mjög lítil. Farið verður frekar hægt yfir og stoppin mörg og því ætti þetta að vera ferð sem hentar flestum. Mikilvægt er að vera í góðum skóm og vatnsheldum því að fara þarf yfir mýrlendi á nokkrum stöðum.

 

Vegalengdir:

  • Hofsstaðir - Laugaland um 10 km.
  • Laugaland - Staður um 5 km.
  • Heildarvegalengd rúmir 15 km.

Gott er að hafa með sér létt nesti. Nægt drykkjarvatn má finna á leiðinni.

 

 

Sunnudagurinn 26. júní:

 

Hjólaferð fyrir Gilsfjörð

 

Leiðsögumaður Gauti Eiríksson. Lagt af stað kl. 12.00 frá Vogalandi í Króksfjarðarnesi. Hjólað verður fyrir Gilsfjörð og svo yfir Gilsfjarðarbrúna til baka í Króksfjarðarnes. Hjólað er á malarvegi fyrir fjörðinn og á malbiki yfir fjörðinn. Hægt verður að fylgja hópnum á bílum og í raun má hjóla hvaða hluta leiðarinnar sem fólk vill. Nokkrar brekkur eru á leiðinni en þær eru frekar stuttar og ekki mjög brattar. Nokkur nestisstopp verða á leiðinni. Áætluð lok um kl. 16.00.

 

Vegalengdir:

  • Króksfjarðarnes - Brekka um 12 km.
  • Brekka - Saurbær um 14 km.
  • Saurbær - Króksfjarðarnes um 5 km.
  • Heildarvegalengd um 31 km.

 

Verð og skráning í göngur

 

Opið verður fyrir skráningu í göngur frá 23. maí til 23 júní. Mælt er með að fólk skrái sem fyrst, annað hvort í netfanginu info@reykholar.is eða í síma 894 1011 eftir 23. maí (Harpa).

 

Hægt verður að kaupa helgarpakka með öllum göngunum inniföldum, sem og 50% afslætti í sund á Reykhólum og í Djúpadal og á hið nýja sameinaða Hlunninda- og bátasafn á Reykhólum. Verð á heildarpakkanum mun liggja fyrir fljótlega þegar allar göngur hafa verið ákveðnar. Ef fólk skráir sig í tvær stuttar göngur eða löngu gönguna mun það fá 50% afslátt inn á Hlunninda- og bátasafnið á Reykhólum og 50% afslátt í sund á Reykhólum og í Djúpadal.

 

Einnig ef fólk skráir sig í fleiri en eina göngu er veittur afsláttur. Fjölskylduafsláttur verður einnig til staðar.

 

 

Verð í stakar göngur

 

Jónsmessunæturganga á Vaðalfjöll

  • Fullorðnir kr. 500
  • 14-16 ára kr. 250
  • 13 ára og yngri fá frítt í fylgd með fullorðnum

Gufudalsháls

  • Fullorðnir kr. 500
  • 14-16 ára kr. 250
  • 13 ára og yngri fá frítt í fylgd með fullorðnum

Skálaneshraun

  • Fullorðnir kr. 500
  • 14-16 ára kr. 250
  • 13 ára og yngri fá frítt í fylgd með fullorðnum

Hofsstaðir - Laugaland - Staður

  • Verð með kjötsúpu:
  • Fullorðnir kr. 2.000
  • 14-16 ára kr. 1.000
  • 13 ára og yngri fá frítt í fylgd með fullorðnum
  • Verð án kjötsúpu:
  • Fullorðnir kr. 1.000
  • 14-16 ára kr. 500
  • 13 ára og yngri fá frítt í fylgd með fullorðnum

 

Hjólaferð fyrir Gilsfjörð

  • Frítt verður að taka þátt í hjólaferðinni en skráning er nauðsynleg.

 

Þess má geta, að á Facebook hefur verið stofnuð vefsíðan Gengið um sveit - Reykhólahrepp.

 

Sjá einnig:

22.02.2011  Harpa frá Stað ráðin í nýja stöðu ferðamálafulltrúa

 

Athugasemdir

Bergsveinn G Reynisson, laugardagur 30 aprl kl: 08:02

Glæsilegt.

En sýslurnar sem sést í af Vaðalfjöllum eru gott betur en fimm, þær eru að minstakosti níu.

Herdís Rósa Reynisdóttir, sunnudagur 01 ma kl: 09:33

já þetta er frábært framtak . ég fór yfir Gufudalsháls þegar ég var 10 ára og það var ekkert mál, ég hef ekki farið síðan og ég held að það gæti verið aðeins erfiðara núna :D

Einar Örn Thorlacius, mnudagur 02 ma kl: 08:15

Mér líst vel á þetta alt saman.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30