Tenglar

29. janúar 2012 |

Útivistin langa og stranga hjá Herði á Tindum

Hörður á Tindum og Patrolinn.
Hörður á Tindum og Patrolinn.
1 af 3

Fréttin af nærri sautján tíma útivist Harðar Grímssonar á Tindum í Geiradal í liðinni viku flaug um landið og miðin. Hann lagði af stað frá Hólakaupum á Reykhólum í nánast logni áleiðis heim að Tindum laust eftir klukkan hálffimm á miðvikudag. Leiðin var greið enda Erlingur Jónsson á Reykhólum nýbúinn að fara hana með snjóplóginn og önnur akreinin þess vegna alveg snjólaus. Hins vegar var mikil lausamjöll á jörðu eftir þétta logndrífu þá um daginn.

 

Aftur og aftur hefur verið greint frá því í fréttum að undanförnu (og reyndar eins lengi og elstu menn muna) að menn hafi þrátt fyrir blátt bann lagt á ófæra og lokaða vegi í svartabyl og auðvitað setið fastir. Bílarnir síðan fyrir snjóruðningstækjum þegar veður lagaðist.

 

Ekki verður Hörður Grímsson sakaður um slíkt fyrirhyggjuleysi. Vissulega var búið að spá því að hvessti með kvöldinu en veðrabrigðin voru svo snögg að með ólíkindum má heita. Ekki var Hörður heldur á vanbúnum eða vanmáttugum bíl heldur stórum Patrol-jeppa og leiðin heim ekki löng. Tuttugu mínútna keyrsla að öllu eðlilegu.

 

Í frásögnum af stórviðrum fyrri tíma, eins og í ritunum Hrakningar og heiðavegir og Söguþættir landpóstanna og mörgum öðrum, er iðulega sagt að stórviðri hafi brostið á „eins og hendi væri veifað“. Það orðalag átti vel við í þetta sinn.

 

Sá sem þetta færir í letur stóð í rólegheitum við glugga á Reykhólum og horfði út. Það var nánast alveg logn og vindpokinn við flugbrautina rétt hjá Hólakaupum gleggsta merki þess. Þá var bankað og blekbóndi spurður hvort hann gæti skotist niður til að taka mynd. Ekki voru liðnar tíu mínútur þegar hann kom inn til sín aftur. Þá var komið aftakaveður og svartabylur og sá ekki einu sinni í svalahandriðið fyrir utan. Tveir gluggar sinn hvoru megin höfðu rifnað upp í sviptingunum og fannstrókurinn náði fjóra metra inn á gólf - inn um aðeins 30 cm breiðan glugga sem gat ekki opnast nema 15 cm. Þetta var skafrenningur en ekki ofankoma - og þetta var á efri hæð. Blöð og annað lauslegt hafði sópast af borðum og ber upp frá því merki þessarar skyndilegu og skammvinnu vosbúðar.

 

Sjálfritandi vindmælirinn neðan við þorpið á Reykhólum sýndi að eftir þetta voru vindhviður á bilinu 31-38 metrar á sekúndu á hverjum klukkutíma í hálfan sólarhring (sjá skjáskot á mynd nr. 3).

 

Nema hvað - þegar Hörður leggur af stað frá Hólakaupum er ekkert farið að hreyfa vind. Þegar hann er að koma inn í Gjárnar rétt innan við skógræktina á Barmahlíð brestur hann á, eftir líklega kringum sjö mínútna akstur. Þarna er vegurinn krókóttur og bratt og hátt niður og allt niður í fjöru Berufjarðar.

 

„Þetta var mjög snöggt, veðrið rauk upp með fullum krafti á einni til tveimur mínútum frá því að byrjaði að hreyfa vind og þangað til komið var ofsarok“, segir Hörður. „Og þar með á svipstundu kominn þreifandi bylur, alveg kolblint. Ég sá ekki fram fyrir húddið og stoppaði. Það skóf strax að bílnum þannig að hann sat fastur þarna á veginum.

 

Eftir klukkutíma eða svo rofaði aðeins til þannig að ég grillti fram fyrir bílinn, svo að ég ákvað að reyna að losa hann og fór út að moka frá honum. Það tók mig talsverðan tíma og erfitt að vera úti, bylurinn var svo harður að ég hélst ekki við úti lengi í einu. Loksins kom ég bílnum aðeins af stað og komst svolítinn spöl. Þá lenti ég í öðrum skafli þar sem ég missti bílinn út af kantinum hægra megin svo að hann snarhallaðist. Þar beið ég nokkuð lengi og vildi ekki reyna að hreyfa bílinn við þessar aðstæður. Ég vissi ekki nákvæmlega hvað ég var kominn langt þarna í Gjánum og vissi því ekki hversu hátt var niður á þessum stað. Síðar sá ég að þarna var talsverður bratti og ég hefði alveg getað velt bílnum.

 

Eftir langan tíma fór að dúra milli élja og þá fór ég út og mokaði mikið frá bílnum að ofanverðu og náði honum upp á veginn aftur. Hins vegar var útilokað að komast áfram eitthvað að ráði. Bíllinn snerist og afturendinn fór út af og þannig sat ég það sem eftir var. Þá var þetta basl búið að taka nokkra klukkutíma.“

 

- Þú varst í gsm-sambandi ...

 

„Já, símasambandið var ágætt þannig að allir vissu af mér.“

 

- Lögðu menn eitthvað í að reyna að aðstoða þig þarna um kvöldið?

 

„Það voru margir í sambandi við mig að spá í hvort það væri nokkur möguleiki en okkur leist ekkert á það lengi vel. Þegar komið var fram yfir miðnætti ákváðu Stefán á Gróustöðum og Kjartan á Bakka að reyna að koma til mín, en það reyndist alveg vonlaust. Ég held að Stefán hafi komist út í Nes en þá var orðið alveg blint. Kjartan var að reyna að moka sig heiman frá sér en það var svo mikill snjór og svo blint að það var engin leið. Stebbi á Seljanesi komst ekki neitt heldur. Ég var búinn að sætta mig við að bíða þarna þangað til veðrinu slotaði en samt vildu þessir menn reyna að koma mér til aðstoðar. Ég er innilega þakklátur öllum þessum ágætu mönnum sem vildu reyna að koma mér til hjálpar í snarbrjáluðu og ófæru veðri um hánótt. Ég var ekkert að hvetja þá til þess.“

 

- Þú varst svo heppinn að vera að koma beint frá því að kaupa í matinn. Hvað var helst „á matseðlinum“ í bílnum í þessari löngu útilegu?

 

„Aðallega var það kex og bananar en ég hafði svo sem ýmislegt fleira sem ég var ekki byrjaður á. Til dæmis var ég ekki byrjaður á skyrinu. Ég hefði getað verið þarna miklu lengur án þess að hafa nokkrar minnstu áhyggjur af matarskorti!“

 

- Þú hefur getað haft nógan hita í bílnum?

 

„Á tímabili þegar bíllinn var utan í kantinum þar sem ég festi hann fyrst hallaðst hann mikið og þá hitaði miðstöðin ekki neitt, þannig að það var nokkuð kalt að sitja þarna blautur. Ég var blautur af því að vera alltaf að fara út. En þegar hann fór síðan út af kantinum að aftan var enginn hliðarhalli og þá hitnaði hann þokkalega. Svo fór ég að verða hræddur um að verða tæpur á olíunni þannig að ég drap á honum á milli.“

 

- Gastu eitthvað sofið?

 

„Ég gat blundað aðeins. Annars hlustaði ég á útvarpið.“

 

Það var næturútvarp Rásar tvö sem var á dagskránni þessa löngu nótt hjá Herði Grímssyni.

 

- Hvernig losnaðirðu svo að lokum?

 

„Veðrið fór að skána um morguninn. Jens í Mýrartungu hringdi í mig um sjöleytið og sagðist ætla að reyna að koma á dráttarvél. Klukkan var eitthvað að ganga níu þegar hann var kominn til mín og það gekk bara nokkuð vel. Hann gat dregið bílinn upp og gegnum skaflinn sem þar var. Síðan keyrði ég langleiðina í förin hans nema hvað hann þurfti að draga mig gegnum einn skafl fyrir ofan Hóla. Það voru skaflar hér og þar en víðast var snjórinn að mestu fokinn af veginum.“

 

Á leiðinni kom Hörður við í Bjarkalundi til að taka olíu á bílinn enda var orðið mjög framorðið á tankinum. Þegar hann var að því hringdi Gísli Einarsson fréttamaður á RÚV og spurðist fyrir um þetta sérstæða ferðalag. Hörður spurði Gísla hvernig hann vissi eiginlega af þessu, en þá hafði einhver hringt í hann og sagt honum frá því.

 

- Það hefur verið notalegt að koma heim eftir þessa löngu útivist ...

 

„Já, það var gott! Þetta var eiginlega orðið alveg nógu langt ferðalag - að minnsta kosti hvað tímann varðar.“

 

Og hvað tímann varðar má bæta einu við: Frá því að Hörður lagði af stað og þangað til hann kom heim leið fimmtíu sinnum lengri tími en ætlað var - mínúturnar tuttugu voru nálægt þúsundinu þegar upp var staðið á hlaðinu heima á Tindum eða hátt í sautján klukkutímar.

 

Á mynd nr. 1 eru Hörður og Patrolinn hinir bröttustu og búnir að hvíla sig. Mynd nr. 2 af jeppanum tók Fjóla Benediktsdóttir á Tindum úr dyragættinni fljótlega eftir að eiginmaðurinn kom heim.

 

Athugasemdir

Fjóla Benediktsdóttir, sunnudagur 29 janar kl: 16:52

Kærar þakkir fyrir hjálpina og vinarhug kæru sveitungar og vinir. Það var mikill léttir fyrir okkur mæðgurnar þegar Hörður kom loksins heim.... Takk

Sigurður Hreiðar, sunnudagur 29 janar kl: 17:55

Ég þekki sjálfur hvernig veðrið verður stjörnuvitlaust á augabragði. Rengi því ekki þá semþannig skýra frá.

Bjarni Ólafsson, sunnudagur 29 janar kl: 23:55

Magnað ferðalag, Hörður. Þetta minnir mig á gamla tíman þegar hann skall á með ofsa veðri og blindbyl. Man eftir þegar ég var í læri hjá sr.Þórarni Þór að við Jónas skruppum á B-140 uppí Tilraunastöð og það gerði svo snarvittlaust veður við flugbrautina að við vissum vart í hvora áttinu við snerum, ferðin tók rúma klukkustund. Gott að þetta endaði allt vel, en skil vel ótta þinn að vera hálfur útaf veginum í Gjánum. Gott er heilum Patrol heim að aka. Gangi þér allt í haginn!

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31