Útskýringar varðandi netsamband í sveitum
Eftirfarandi árétting hefur borist frá upplýsingafulltrúa samgönguráðuneytis til upplýsingar í framhaldi af frétt hér á vefnum þar sem vitnað var til fréttar á vefnum strandir.is: „Vegna upplýsinga sem fram koma í fréttinni Líður að opnun tilboða í netvæðingu sveitanna, óskar fjarskiptasjóður að taka eftirfarandi fram: Þeir bæir sem taldir eru upp í fréttinni eru eftir sem áður með í útboði fjarskiptasjóðs hvað varðar háhraðanettengingar. Þessir tilteknu bæir, ásamt nokkrum öðrum bæjum um land allt, voru teknir af lista yfir staði sem bjóðendur í útboðinu mega (valkvæmt) bjóða að dekka með GSM þjónustu. Með GSM þjónustu er átt við háhraðafarnetsþjónustu í útboðsgögnum. Ástæðan fyrir þessum tilteknu breytingum er sú að GSM markaðsaðili hefur nýlega upplýst fjarskiptasjóð um markaðsáform sín á þessum tilteknu stöðum."