Útungunin hjá arnarparinu misfórst
Margir töldu sig hafa séð unga í hreiðrinu í myndavélinni en það hefur verið óskhyggja enda er ekki gott að sjá niður í það. Hins vegar hefði átt að verða vart við að örninn færði unganum eða ungunum æti en svo var ekki. Meira en mánuður er liðinn frá því að ungar hefðu átt að skríða úr eggjum í þessu hreiðri en örninn liggur venjulega á vikum saman fram yfir eðlilegan tíma. Algengt er að útungun misfarist hjá erninum með þessum hætti. Þetta verður á engan hátt rakið til nærveru myndavélarinnar, sem sett var upp í fyrra með leyfi og undir eftirliti Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar. Þá komu hjónin upp einum unga „í beinni útsendingu“.
Nú er í athugun að færa myndavélina og setja hana upp við hreiður þar sem ungi eða ungar hafa litið dagsins ljós. Það yrði að sjálfsögðu einnig gert með leyfi og undir eftirliti sérfræðinga hjá fyrrgreindum stofnunum. Frá því verður greint hér á vef Reykhólahrepps þegar og ef af því verður.
Breiðafjörðurinn og sveitirnar í kring eru helsta búsvæði og varpsvæði íslenska arnarstofnsins.