Útvarpstækin meðferðis á útifund
„Það er mikið hagsmunamál fyrir alla íbúa landsins að fréttamenn og annað dagskrárgerðarfólk hafi aðsetur sem víðast um landið. Í yfir 20 ár hefur Ríkisútvarpið rekið starfsstöðvar á Akureyri, Egilsstöðum og á Ísafirði. Hafa þessar stöðvar sent út svæðisútvarp þar sem málefni hvers svæðis hafa verið í brennidepli. Auk þess hafa margir útvarpsþættir verið sendir út frá svæðisstöðvunum, til að mynda Okkar á milli og innslög í Samfélagið í nærmynd og Dægurmálaútvarpið, svo eitthvað sé nefnt.
Það verður ekki séð hvernig Ríkisútvarpið ætlar að rækja skyldur sínar við íbúa landsins ef öll dagskrárgerð verður í Reykjavík um Reykjavík. Ríkisútvarpið hefur bæði öryggis- og menningarlegum skyldum að gegna og því skorum við á stjórn RÚV og menntamálaráðherra að grípa inn í þessa atburðarás. Það er með ólíkindum að enn og aftur skuli niðurskurðarhnífnum vera beitt á landsbyggðina.
Mætum á laugardaginn kl. 16 fyrir framan starfsstöð RÚV á Ísafirði. Höfum með okkur útvarpsviðtækin, gömul, ný, stór og smá - sýnum samstöðu og krefjumst réttar okkar.
Fyrir hönd þeirra sem vilja hlusta á Ríkisútvarp allra landsmanna, ekki bara Útvarp Reykjavík, í Reykjavík, um Reykjavík.
- Matthildur Helgadóttir Jónudóttir.“
Sjá einnig:
22.01.2010 Svæðisútvarpið lagt af eftir tveggja áratuga starfsemi