Tenglar

30. janúar 2010 |

Útvarpstækin meðferðis á útifund

Efnt verður til mótmælafundar utan við húsakynni Ríkisútvarpsins á Ísafirði kl. 16 í dag til að mótmæla lokun Svæðisútvarps Vestfjarða og uppsögn Guðrúnar Sigurðardóttur fréttamanns. Fundargestir eru hvattir til að hafa með sér útvarpstæki, gömul og ný, stór og smá. Eftirfarandi tilskrif barst frá Matthildi Helgadóttur Jónudóttur, frkvstj. Tölvuþjónustunnar Snerpu á Ísafirði, með yfirskriftinni Vestfirðingar mótmæla yfirvofandi lokun starfsstöðvarinnar á Ísafirði og uppsögn fréttamanns þar. Matthildur undirritar tilkynninguna „fyrir hönd þeirra sem vilja hlusta á Ríkisútvarp allra landsmanna, ekki bara Útvarp Reykjavík, í Reykjavík, um Reykjavík“.

 

„Það er mikið hagsmunamál fyrir alla íbúa landsins að fréttamenn og annað dagskrárgerðarfólk hafi aðsetur sem víðast um landið. Í yfir 20 ár hefur Ríkisútvarpið rekið starfsstöðvar á Akureyri, Egilsstöðum og á Ísafirði. Hafa þessar stöðvar sent út svæðisútvarp þar sem málefni hvers svæðis hafa verið í brennidepli. Auk þess hafa margir útvarpsþættir verið sendir út frá svæðisstöðvunum, til að mynda Okkar á milli og innslög í Samfélagið í nærmynd og Dægurmálaútvarpið, svo eitthvað sé nefnt.

 

Það verður ekki séð hvernig Ríkisútvarpið ætlar að rækja skyldur sínar við íbúa landsins ef öll dagskrárgerð verður í Reykjavík um Reykjavík. Ríkisútvarpið hefur bæði öryggis- og menningarlegum skyldum að gegna og því skorum við á stjórn RÚV og menntamálaráðherra að grípa inn í þessa atburðarás. Það er með ólíkindum að enn og aftur skuli niðurskurðarhnífnum vera beitt á landsbyggðina.

 

Mætum á laugardaginn kl. 16 fyrir framan starfsstöð RÚV á Ísafirði. Höfum með okkur útvarpsviðtækin, gömul, ný, stór og smá - sýnum samstöðu og krefjumst réttar okkar.

 

Fyrir hönd þeirra sem vilja hlusta á Ríkisútvarp allra landsmanna, ekki bara Útvarp Reykjavík, í Reykjavík, um Reykjavík.

 

- Matthildur Helgadóttir Jónudóttir.“

 

Sjá einnig:

22.01.2010  Svæðisútvarpið lagt af eftir tveggja áratuga starfsemi

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31