Tenglar

31. júlí 2013 | vefstjori@reykholar.is

Uxaburður á Reykhólum í minningu Grettis?

Grettir með uxann. Teikning eftir Halldór Pétursson.
Grettir með uxann. Teikning eftir Halldór Pétursson.
1 af 2

Baggakast var meðal nýrra keppnisgreina á Reykhóladögum að þessu sinni. Af því tilefni varpar Gylfi Helgason á Reykhólum fram þeirri hugmynd að taka upp keppnisgrein sem passaði mjög vel við staðinn, en það væri uxaburður. Fræg er frásögnin í Grettis sögu af ferð Grettis Ásmundarsonar og þeirra fóstbræðra Þorgeirs Hávarssonar og Þormóðar Kolbrúnarskálds út í Ólafseyjar síðla hausts að sækja uxa og gekk þar á ýmsu.

 

Þeir félagar komu að landi með uxann við Hvalshaushólm eftir harðan róður. Mikill sjór var kominn í skipið auk þess sem á það hafði hlaðist ísing. Þeir fóstbræður tóku að sér að setja upp skipið (draga það á land) en Grettir lagði af stað með uxann heim að Reykhólum. Þegar þeir voru komnir á móts við Tittlingsstaði gafst boli upp en Grettir tók hann á herðar sér og bar það sem eftir var leiðarinnar. Þannig segir frá þessu í Grettis sögu: 

 

  • En með því að skip var gott en menn heldur í röskvara lagi þá náðu þeir Hvalshaushólm. Grettir spyr hvort þeir vildu heldur fara heim með uxann eða setja upp skipið. Þeir kjöru heldur að setja upp skipið og settu þeir upp með öllum sjónum þeim sem í var og jöklinum en það var mjög sýlt. En Grettir leiddi uxann og var hann mjög stirður í böndunum en allfeitur. Varð honum mjög mætt. En þá er hann kom neðan hjá Tittlingsstöðum þraut uxann gönguna.
  • Þeir fóstbræður gengu til húss því að hvorugir vildu veita öðrum að sínu hlutverki. Þorgils spyr að Gretti en þeir sögðu hvar þeir höfðu skilið. Hann sendi þá menn á móti honum og er þeir komu ofan undir Hellishóla sáu þeir hvar maður fór í móti þeim og hafði naut á baki og var þar kominn Grettir og bar þá uxann. Undruðust þá allir hversu mikið hann gat orkað. Lék Þorgeiri næsta öfund á um afl Grettis.

 

Öðru hverju eru Reykhólar einn keppnisstaða í Vestfjarðavíkingnum og þannig var á síðasta ári. Umsjónarmaður þessa vefjar nefndi það þá við kraftajötuninn gamla Magnús Ver Magnússon, umsjónarmann Vestfjarðavíkingsins, að tilvalið væri að hafa uxaburð á meðal keppnisgreina og minnast þar með sögunnar af Gretti sterka. Magnús taldi vel athugandi að taka þá grein upp næst þegar hluti keppninnar yrði haldinn á Reykhólum.

 

Auðvitað myndu menn ekki bera raunverulegt naut heldur einhverja byrði sem táknaði bolann.

 

Teikninguna sem hér fylgir af Gretti með uxann á herðum lét áðurnefndur Gylfi Helgason vefnum í té til birtingar. Hún er eftir Halldór Pétursson listmálara (1916-1977), en margt af teikningum hans tengist íslenskum dýrum og náttúru og íslenskum sagnaarfi.

 

Á mynd nr. 2 er Bragi Jónsson í baggakastinu á nýliðnum Reykhóladögum, en myndina tók Jón Kjartansson faðir hans. Í þeirri keppni sigraði Torfi Sigurjónsson í karlaflokki en Jóhanna Fríða Dalkvist í kvennaflokki. Hún var einnig í liði Barðstrendingafélagsins í Reykjavík sem sigraði í spurningakeppni Reykhóladaganna.

 

07.07.2012 Yfir tveir metrar á hæð og hátt í 200 kg á þyngd

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31