Tenglar

11. apríl 2013 | vefstjori@reykholar.is

VG á Reykhólum: Rætt um kostnað við framhaldsnám

Matthías Lýðsson spjallar við fundargesti í SjávarSmiðjunni.
Matthías Lýðsson spjallar við fundargesti í SjávarSmiðjunni.

Þrír frambjóðendur VG komu í heimsókn í Reykhólahrepp í gær, þau Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður á Suðureyri, oddviti listans, Lárus Ástmar Hannesson í Stykkishólmi, sem skipar annað sætið, og Strandamaðurinn Matthías Lýðsson, sem skipar fjórða sætið. Þau hittu sveitarstjóra og heilsuðu upp á fólk í Barmahlíð en síðan þurfti Lilja Rafney að halda áfram för sinni í Borgarnes.

 

Gestirnir skoðuðu framkvæmdir við saltverksmiðjuna sem er í byggingu og sátu sem áheyrnarfulltrúar á aðalfundi Búnaðarfélags Reykhólahrepps. Eftir þann fund var fjallað um stöðu landbúnaðar í héraðinu og notið kaffiveitinga í boði Búnaðarfélagsins, sem þrjár ungar stúlkur í Reykhólaskóla önnuðust og reiddu fram.

 

Tíminn frá því Búnaðarfélagsfundinum lauk og þangað til Lárus Ástmar og Matthías héldu opinn fund í SjávarSmiðjunni á Reykhólum í gærkvöldi var nýttur til skoðunarferðar um Reykjanesið. Síðan buðu Svana og Tumi á Reykhólum til kvöldverðar.

 

Á fundinum í gærkvöldi fluttu Lárus Ástmar og Matthías ávarpsorð og svöruðu spurningum. Í framsögu sinni var Matthías í sagnfræðinni, ef svo má segja, fjallaði um stöðuna um síðustu kosningar og viðfangsefnin þá. Lárus fór yfir stöðuna í dag og verkefnin sem framundan eru.

 

Umræður voru líflegar. Mönnum varð tíðrætt um fjármál og voru fundargestir ófeimnir við að fjalla um það sem betur hefði mátt fara á kjörtímabilinu sem nú er að ljúka og benda frambjóðendum á sitthvað sem gera þurfi á því næsta. Meðal þess sem bent var á var kostnaðurinn sem fylgir því þegar ungt fólk á landsbyggðinni sækir sér framhaldsmenntun.

 

Af öðru sem til umræðu kom má nefna nýju náttúruverndarlögin og vangaveltur um það, hvort bændur myndu gerast brotlegir við þau með því að smala fé sínu á haustin með þeim hætti sem tíðkast hefur.

 

Lárus Ástmar og Matthías lýstu mikilli ánægju með framkvæmdir á Reykhólum og hvöttu til bjartsýni.

 

SjávarSmiðjan á Reykhólum er orðin vettvangur framboðskynninga og bíða Svana og Tumi spennt eftir símtölum frá einhverjum af þeim fjórtán framboðum eða hvað það nú er sem eftir eru. Eins og hér kom fram var Framsókn með fund í SjávarSmiðjunni í fyrrakvöld. Á Reykhólum er tekið vel á móti gestum.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31