30. maí 2011 |
Væn bleikja veiðist í Berufjarðarvatni
„Þær hafa verið vænar“, sagði Árni Arnar Sigurpálsson hótelstjóri í Bjarkalundi í samtali við Morgunblaðið, aðspurður um bleikjurnar sem hann og fleiri hafa verið að veiða í Berufjarðarvatni rétt neðan við hótelið. „Þetta er staðbundin bleikja og mjög góð.“ Árni segir mjög vænar bleikjur hafa veiðst og þær fari stækkandi með hverju árinu. „Þær stærstu hafa verið sjö til átta pund. Það er engin rosaveiði, bleikjan er dyntótt eins og menn þekkja, en stundum fást mjög fallegir fiskar.“
Við þessa bleikjufrétt líðandi stundar má bæta elstu heimild um fiskeldi á Íslandi. Alifiskalækur rennur í Berufjarðarvatn. Meðal hinna lítt þekktari fornsagna er Gull-Þóris saga, öðru nafni Þorskfirðinga saga. Þar segir á einum stað: „Þeir tóku fiska úr vatninu og báru í læk þann er þar er nær og fæddust þeir þar. Sá heitir nú Alifiskalækur.“ Litlu síðar segir: „Þá réð Haraldur konungur hárfagri fyrir Noreg.“
Öðru má einnig bæta við. Eftir að fiskeldi varð atvinnugrein hérlendis er jafnan talað um eldisfisk. Á hinn bóginn er talað um alifugla, alisvín, alikálfa o.s.frv. Ef til vill hefði verið ræktarlegra við íslenskt mál að nota frekar hið eldforna orð alifiskur en eldisfiskur ...