Tenglar

30. ágúst 2011 |

Val milli náttúrunnar og lífsmöguleika fólksins?

Frá fundinum í gær. Skjámynd: Stöð 2.
Frá fundinum í gær. Skjámynd: Stöð 2.
1 af 2

Á að taka tré og fugla fram yfir lífsmöguleika byggðar á Vestfjörðum? Þessari spurningu varpaði prófessor á Akureyri fram á fundi í gær inn í tuttugu manna nefnd sem vinnur að sátt um framtíðarlegu vegarins um sunnanverða Vestfirði. Ráðamenn á Vestfjörðum vilja að leiðin um Austur-Barðastrandarsýslu (Reykhólahrepp) verði stytt verulega og losnað verði við að fara yfir tvo mjög erfiða hálsa í Gufudalssveit í Reykhólahreppi, Hjallaháls og Ódrjúgsháls. Þetta þýddi að vegurinn færi um Teigsskóg í Þorskafirði ef leið B yrði valin en landeigendur og náttúruverndarsamtök leggjast gegn slíku.

 

Ögmundur Jónasson, ráðherra vegamála, sagðist í sumarbyrjun ætla að höggva á hnútinn núna í haust og því til undirbúnings hélt hann í gær þriðja samráðsfundinn í þessum mánuði með helstu málsaðilum. Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri, einfaldaði málið: Svara þyrfti spurningum eins og hversu mikið ætti að hugsa um fugla og tré, hversu mikið ætti að hugsa um lífsmöguleika byggðarinnar og hversu mikið ætti að hugsa um kostnað.

 

Hægt væri að bjarga Vestfjörðum en það væri dýrt og væru menn tilbúnir til þess? Ef menn vildu bjarga byggðinni væri forgangsatriðið að stytta leiðina sem mest. Það munaði um hvern kílómetra sem hægt væri að stytta, sagði Þóroddur, og bætti við að þetta yrði að gera eins hratt og hægt væri, því menn hefðu ekkert langan tíma.

 

Ráðherrann stefnir að niðurstöðu í september. Hann kveðst þó hafa efasemdir um að allir verði sáttir með þá niðurstöðu. Það versta sé þó að hafa þetta í lausu lofti of lengi og því sé mikilvægt að fá niðurstöðu.

 

Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi. Smellið hér til að sjá myndskeiðið.

 

Sjá einnig:

08.07.2011  Skipar samráðshóp um vegagerð í Reykhólahreppi

 

Því er við þetta að bæta, að í byrjun mars var efnt til viðhorfskönnunar til leiðarvals meðal íbúa Reykhólahrepps. Meirihlutinn studdi leið A (framhjá Reykhólum, út Reykjanesið og yfir mynni Þorskafjarðar, hugsanlega ásamt sjávarfallavirkjun) sem hefði í för með sér verulega styttingu leiðarinnar jafnframt því sem komist væri hjá því að fara um Teigsskóg (svarta veglínan á mynd 2). Smellið á kortið til að stækka.

 

Sjá hér:

03.05.2011  Niðurstöður viðhorfskönnunar til leiðarvals

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31