Vald, peningar, spilling
Rúmum sjö árum eftir gjaldþrot íslenska fjármálakerfisins er fjarri því komið á jafnvægi og sæmileg sátt um stóru málin. Það sést best á mælingum á fylgi stjórnmálaflokkanna. Gamlir og grónir flokkar eða arftakar þeirra eiga allir í miklum vandræðum og njóta lítils fylgis, en nýr flokkur eykur stöðugt fylgi sitt og nálgast nú 40% fylgi. Vissulega eru þetta enn sem komið er aðeins kannanir, en það fer ekki á milli mála að kjósendur eru afar óánægðir með núverandi og síðustu stjórnarflokka og eru að setja fram ákveðnari kröfu en áður um breytingar.
Þetta segir í upphafi greinar sem Kristinn H. Gunnarsson sendi vefnum til birtingar undir fyrirsögninni hér fyrir ofan. Síðan segir hann m.a.:
- Í rúmt ár hefur þessi þróun verið, og með hverjum mánuðinum sem líður verður krafan um breytingar skýrari að því leyti, að hefðbundnu stjórnmálahreyfingarnar fá samanlagt æ minna fylgi og óhefðbundni flokkurinn fær meira fylgi. Nú er svo komið að Sjálfstæðisflokkurinn er farinn að fá minna en 20% og Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin og Vinstri grænir eru hver um sig um það bil 10% flokkur.
- Þessi staða á sér engin fordæmi í 100 ára sögu íslenska flokkakerfisins. Fylgið við nýja flokkinn, Pírata, er að einhverju leyti byggt á frammistöðu þingmanna hans og því að flokkurinn svarar að einhverju leyti kröfum um breyttar málefnaáherslur og starfshætti.
- En líklega er samt stærsta skýringin á fylgi þeirra, enn sem komið er, megn óánægja með „gömlu“ flokkana. Meðan þeir skynja ekki kröfur kjósenda og gera ekki trúverðugar breytingar á stefnu sinni og forystusveit munu allar líkur benda til stórfelldrar fylgissveiflu í næstu Alþingiskosningum í takt við skoðanakannanirnar.
Grein Kristins í heild má lesa hér og undir Sjónarmið í valmyndinni vinstra megin.