Tenglar

7. mars 2016 |

Vandi út af sveiflum í mjólkurframleiðslu

Á síðasta ári var framleiðsla mjólkur umfram markaðsþarfir innanlands og verulegt tap á rekstri Mjólkursamsölunnar. Fyrstu vikur þessa árs hefur mjólkurframleiðslan verið enn meiri en í fyrra og getur því stefnt í enn meiri vanda á þessu ári. „Skilaboðin sem við fáum er að gera verði eitthvað til að koma á meira jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á mjólkurvörum. Menn eru hins vegar ekki sammála um eina leið,“ segir Egill Sigurðsson, bóndi á Berustöðum og formaður stjórnar Mjólkursamsölunnar.

 

Þetta kemur fram í fréttaskýringu Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu í dag. Þar segir einnig meðal annars:

 

Á árinu 2013 vantaði mjólk, sérstaklega til framleiðslu á fituríkari afurðum. Gerðar voru sérstakar ráðstafanir og bændur hvattir til að auka framleiðsluna. Það skilaði sér og er enn að skila sér í aukinni mjólkurframleiðslu. Á síðasta ári var framleiðsla umfram markaðsþarfir innanlands um 7-8 milljónir lítra, ef litið er til fituinnihalds mjólkurinnar, en mun meiri ef litið er til próteinhlutans. Þetta orsakaði verulegt tap á rekstri Mjólkursamsölunnar á síðasta ári.

 

Mjólkurframleiðslan hefur verið 9-11% meiri en í fyrra fyrstu vikur þessa árs og því getur stefnt í enn meiri vanda á þessu ári. Ein af þeim leiðum sem Egill nefnir er að víkja til hliðar loforði um að greiða fullt afurðastöðvaverð fyrir mjólk umfram greiðslumark. Það gæti kallað á kröfur vegna vanefnda og sett bændur sem mest og best brugðust við ákalli um aukna framleiðslu í rekstrarvanda.

 

Egill telur ekki ástæðu til að grípa til róttækra aðgerða, það geti leitt til hráefnisskorts. Hins vegar þurfi að færa framleiðsluna nær jafnvægislínunni. „Það tekur langan tíma að ná upp mjólkurframleiðslu en auðvelt er að slökkva á henni með því að slátra kúnum,“ segir Egill, og bætir því við að árferði ráði miklu um þróun framleiðslunnar.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31