Tenglar

1. ágúst 2008 |

Var alla tíð með sparibaukinn að safna fyrir vélinni

Elvar við fisið sitt. Ljósm. Bj.Sam.
Elvar við fisið sitt. Ljósm. Bj.Sam.
1 af 2

Yfir sumarið lenda smávélar á flugbrautinni á Reykhólum nánast á hverjum degi. Stundum eru það einhverjir að heimsækja vini eða ættingja en miklu oftar eru það einhverjir sem hafa brugðið sér í „sunnudagsbíltúr". Í fyrrasumar voru hér einn daginn sex fisvélar samtímis - og reyndar tvívegis þann dag. Þá hafði hópur fisflugmanna ákveðið að skreppa til Ísafjarðar og komu þeir við á Reykhólum í báðum leiðum. Í gær kom Elvar Antonsson frá Dalvík á fisvél sinni á leiðinni kringum landið. „Þetta var tuttugu ára gamall draumur hjá mér", segir hann. „Ég var alla tíð með sparibaukinn að safna fyrir vélinni." Það var loksins í hitteðfyrra sem draumurinn rættist en þá keypti hann vélina beint frá Bandaríkjunum.

 

„Ástæðan fyrir því að ég kom hingað á Reykhóla var sú, að þeir sögðu mér það strákarnir í Fisfélaginu í Reykjavík að hér væri mjög skemmtilegt að koma", sagði Elvar. „Ég vissi ekki að þetta væri svona stór staður og ekki er verra að bensínstöðin skuli vera svona rétt við brautarendann. Ég hélt hreinlega að á Reykhólum væru kannski eitt eða tvö hús og í mesta lagi sjálfsali fyrir bensín."

 

Elvar lagði af stað heiman frá Dalvík á þriðjudag, flaug yfir Mývatnssveitina og lenti í Herðubreiðarlindum. Síðan flaug hann yfir Kárahnjúkasvæðið og tók myndir og kom við á Höfn í Hornafirði áður en hann átti næturstað á Kirkjubæjarklaustri. Í fyrradag flaug hann vestur um að fjallabaki og beint á Snæfellsnes þar sem hann gisti í fyrrinótt. Í gærmorgun kom hann við í Stykkishólmi á leið sinni að Reykhólum, þar sem hann átti góða viðdvöl og spjallaði við tíðindamann, hélt síðan vestur á Barðaströnd og suður að Látrabjargi og lenti loks á Suðureyri við Súgandafjörð þar sem hann gisti í nótt. Eftir hádegið í dag var hann staddur á Hólmavík og ætlaði svo síðdegis heim til Dalvíkur.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30