Tenglar

23. mars 2015 |

Vargar í véum - opið bréf til umhverfisráðherra

Indriði á Skjaldfönn.
Indriði á Skjaldfönn.

Frá því land byggðist hafa forfeður okkar goldið varhug við refnum og það ekki að ófyrirsynju, enda mikill skaðvaldur í sauðfé og nytjafuglastofnum. Fljótlega eftir að fyrsti og eini veiðistjórinn sem bar það nafn með rentu, Sveinn Einarsson frá Miðdal, hafði safnast til feðra sinna, var lögum breytt í þá veru að líffræðingur ætti að sitja í þessum stól og gengið var ítrekað fram hjá reyndum og fyrirtaks hæfum veiðimönnum.

 

Embættið breyttist í veiðikortaútgáfu og að sjá til þess að kjör grenjaskyttna hjá sveitarfélögum yrðu sem hraklegust. Jafnframt var sá áróður rekinn, bæði varðandi ref og mink, að því fleiri dýr af þessu tagi sem drepin væru, því meir stækkuðu stofnar þeirra. Að þessu gerðu varð veiðistjóraembættið sjálfdautt, og það engum harmsefni.

 

Þetta segir Indriði Aðalsteinsson, sauðfjárbóndi á Skjaldfönn við Djúp, meðal annars í opnu bréfi til Sigrúnar Magnúsdóttur umhverfisráðherra undir fyrirsögninni hér fyrir ofan. Einnig segir hann:

 

Samtímis því að veiðistjórarnir sukku dýpra og dýpra í veruleikafirringuna, höfnuðu reynslu kynslóðanna af varginum og fyrirlitu skoðanir leikmanna sem alið höfðu allan sinn aldur á vettvangi, reis á legg umhverfisráðuneyti, sem strax við fæðingu virtist telja það sína helgustu skyldu að slá skjaldborg um varginn, bæði ferfættan og fleygan.

 

Rebbi var friðaður á miðhálendinu, Hornströndum, Skaftafelli, Jökulsárgljúfrum, Snæfellsnesi að hluta og miklu víðar. Bannað var að herja á minka með áður góðum og áhrifaríkum aðferðum og nú má ekki lengur taka þennan morðóða djöful upp á skottinu.

 

Hrafnar voru settir á válista og þvælst er fyrir eftir bestu getu gegn því að álftastofninn, sem veldur bændum gífurlegu tjóni, sé grisjaður. Ríkið fékk, óáreitt af þínum forverum, að fella niður hlutdeild sína í kostnaði við varnarstríð sveitarfélaga, og þau, mörg fjárvana, fóru að trassa að sinna þessum mikilvæga náttúruverndarþætti.

 

Grein sinni lýkur Indriði þannig:

 

Þú hefur, Sigrún, öruggan stuðning til góðra verka á þessu sviði frá þorra þjóðarinnar. Ekki má svæfa þessi mál í nefnd, heldur hefjast handa strax. Ráða hæfan veiðistjóra, heimila aftur grenjavinnslu í öllum þjóðgörðum og friðlöndum og ríkið standi undir helmingi af vargaeyðingarkostnaði sveitarfélaga. Jafnframt verður að alfriða rjúpuna meðan verið er að lágmarka refastofninn. Kostnaðaraukningu ríkisins er sjálfsagt að mæta með því að þú segir upp vargaverndarfólkinu þínu, öllu með tölu. Fullgild ástæða er gróf vanræksla á þeirri starfsskyldu að vernda lífríkið fyrir offjölgun vargs og ganga þannig freklega gegn hagsmunum og lífsgæðum þjóðarinnar.

 

Grein Indriða í heild má lesa hér og undir Sjónarmið í valmyndinni til vinstri.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Mars 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31