Tenglar

6. mars 2013 | vefstjori@reykholar.is

Vatnsdalsbáturinn verður til sýnis á Hnjóti í sumar

Hjalti Hafþórsson við Vatnsdalsbátinn nýja. Ljósm. Sigurður Ægisson.
Hjalti Hafþórsson við Vatnsdalsbátinn nýja. Ljósm. Sigurður Ægisson.
1 af 2

Vatnsdalsbáturinn svokallaði, sem Hjalti Hafþórsson á Reykhólum smíðaði á síðasta ári, verður í sumar hafður til sýnis á Minjasafni Egils Ólafssonar á Hnjóti í Örlygshöfn við sunnanverðan Patreksfjörð. Leifar hins upprunalega Vatnsdalsbáts fundust árið 1964 í kumli (legstað úr heiðnum sið) í Vatnsdal, sem einnig er við sunnanverðan Patreksfjörð.

 

„Báturinn á vel heima á þessu svæði og þjónar þar vel tilgangi sínum til sýningar og fræðslu vegna nándar við kumlið sjálft,“ segir Hjalti.

 

Í greinargerð Þórs Magnússonar fornleifafræðings og síðar þjóðminjavarðar um kumlfundinn í Vatnsdal (Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1966) kemur fram, að þarna hafi sjö manneskjur verið heygðar, þrjár konur og fjórir karlar. Með þeim hefur hundur verið lagður. Í kumlinu var mikill fjöldi rónagla úr bátnum ásamt viðarleifum. Af öðru haugfé má nefna perlur úr steinasörvi, Þórshamar úr silfri, fingurhring og armbauga úr bronsi, bronsbjöllu, kamba, blýmet, skrauthengi (kingu) úr bronsi, hníf og brýni.

 

Ekki síst vegna þess að Þór Magnússyni fyrrverandi þjóðminjaverði er mál þetta nokkuð skylt, sbr. rannsóknir hans á kumlinu í Vatnsdal og umrædda greinargerð hans um þær, er fróðlegt að lesa umsögn hans um smíði eftirmyndar hins meira en þúsund ára gamla báts. Þar segir hann m.a. (dags. 13. nóv. 2012): 

  • Ég rannsakaði sjálfur þetta kuml, eða leifar þess, og get því nokkuð um þetta dæmt. Sjálf smíði bátsins virðist vera vönduð og vel af hendi leyst, efniviðurinn valinn eins og mun hafa verið á víkingaöld, smíðatíma hins upphaflega báts.
  • Að mínu áliti er smíði þessa báts vel af hendi leyst og er smíðisgripurinn bæði fallegur og vandaður, en virðist umfram allt trúverðug mynd af þeim báti, sem einu sinni var, en gat nú aðeins að líta sem óljósa og óverulega mynd hins raunverulega.

 

Sjá einnig (hér koma m.a. fram ítarlegar upplýsingar um kumlið í Vatnsdal við Patreksfjörð):

31.05.2012 Styrkur til endursmíði báts frá árdögum Íslendinga

03.03.2013 Fær veglegan ráðuneytisstyrk til smíði annars báts

 

►► Bátasmíðavefur Hjalta Hafþórssonar

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31