Tenglar

27. desember 2013 | vefstjori@reykholar.is

Veðuráraun og margvíslegar truflanir

Ísing á raflínum / OV.
Ísing á raflínum / OV.

Með vaxandi vindi, lítið eitt hlýnandi veðri og talsvert mikilli úrkomu má reikna með vaxandi veðuráraun á línur á Vestfjörðum, Snæfellsnesi, í Dölum og við Hrútafjörð allt þar í kvöld að veður fer skánandi að nýju, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsneti. Í morgun var rafmagnslaust í Súðavík í skamma stund eftir að útsláttur varð á Súðavíkurlínu kl. 08.04. Línan var sett inn en einn fasi skilar sér ekki til Súðavíkur en búið er að setja varaafl í gang. Eins og staðan er núna er það eina varaaflstöðin sem er í gangi á Vestfjörðum, að sögn Halldórs V. Magnússonar, framkvæmdastjóra rafveitusviðs Orkubús Vestfjarða.

 

Miklar rafmagnstruflanir hafa verið á Vestfjörðum yfir hátíðarnar vegna útleysinga á Vesturlínu. Á Þorláksmessu voru ítrekaðar truflanir á raforkuflutningi frá kl. 23.28 vegna útleysinga á línunni frá Glerárskógum í Dölum til Geiradals í Reykhólahreppi og var varaafl á Ísafirði og á Patreksfirði samkeyrt með Mjólkárvirkjun. Varaafl í Bolungarvík var keyrt í eyju en á aðfangadagsmorgun var flutningskerfi komið í eðlilegan rekstur og varaaflstöðvar komnar úr rekstri.

 

Rafmagn fór af Flateyri og Hvilftarströnd þegar aflrofi sló út í aðveitustöð í Breiðadal um hádegi á aðfangadag og bilun kom upp á loftlínu frá Flateyri að Klofningsdal um tvöleytið. Bilun þessi hefur í tvígang tekið út dreifikerfið á Flateyri en ekki er vitað hvað veldur því að Klofningslínan tollir ekki inni og verður það ekki kannað fyrr en veður lægir. Línan er því spennulaus, en hún þjónar endurvarpsstöð fyrir Ingjaldssand og Valþjófsdal. Gætu því verið truflanir á sjónvarpi, að sögn Halldórs hjá OV.

 

Í gær leysti út Hrafnseyrarlínu, Þingeyrarlínu og Breiðadalslínu 2 kl. 01.28 en þær liggja frá Mjólká um Hrafnseyri og Þingeyri að aðveitustöð í Breiðadal. Reynd var innsetning á Hrafnseyrarlínu án árangurs en orsök útsláttar á þeirri línu var sú að snjófljóð felldi um sex staura í línunni. Eins féll stórt flóð á Breiðadalslínu 1 sem er 66 kV lína á sömu slóðum, en þar eru snjóflóðavarnir ofan við háspennumöstrin sem vörðu þær tjóni. Breiðadalslína 2 og Þingeyrarlína voru spennusettar kl. 01.43 og komst með því aftur á rafmagn á Dýrafjörð og norðanverðan Arnarfjörð, þ.e. Hrafnseyri, Auðkúlu og Tjaldanes.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Febrar 2024 »
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29