Tenglar

20. maí 2008 |

Vefmyndavél Arnarsetursins í gagnið á næstu vikum

Arnarungar við hreiður.
Arnarungar við hreiður.
1 af 3

Margir hafa beðið frétta af vefmyndavélinni sem Arnarsetur Íslands hyggst koma fyrir við arnarhreiður þannig að hægt verði að fylgjast með í beinni útsendingu á netinu. Að þessu framtaki standa hjónin Bergsveinn Reynisson og Signý M. Jónsdóttir á Gróustöðum við Gilsfjörð en Kristinn Haukur Skarphéðinsson arnarsérfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun hefur verið þeim innan handar.

„Væntanlega kemst vélin upp einhvern tímann á næstu vikum. Núna erum við bara að bíða eftir því hvernig útungun reiðir af í nokkrum álitlegum hreiðrum sem við erum með í sigtinu. Við viljum ekki hafa þau mjög aðgengileg fyrir hvern sem er en hins vegar verður að vera auðvelt að fylgjast með búnaðinum", segir Bergsveinn. „Líklega verður þetta einhvers staðar úti í firði þar sem líka er hægt að fylgjast með í fuglaskoðunarsjónauka úr landi. Það væri besti kosturinn."

 

Bergsveinn segir að varpið og útungunin hjá erninum gangi mjög misjafnlega milli ára. „Í fyrra voru ekki nema þrjú hreiður með ungum í Reykhólahreppi. Þá gekk varpið mjög illa á þessu svæði og raunar í hitteðfyrra líka. En eins og tíðarfarið hefur verið síðustu daga lítur þetta mun betur út núna í ár. Seinni hluti maímánaðar skiptir mestu. Ef þá er mjög kalt og hvasst, þá annað hvort drepast ungarnir í klakinu eða fuglinn gefst upp á því að liggja á. Í góðu ári komast upp ungar í sex til átta hreiðrum í Reykhólahreppi. Síðan er annað eins við Skarðsströnd og Fellsströnd og við Hvammsfjörð."

 

Enda þótt náið sé fylgst með arnarvarpi er ekki gefið upp opinberlega hvar hreiður eru til þess að komast hjá ágangi forvitinna. Lögum samkvæmt er óheimilt frá 15. mars til 15. ágúst að koma nær arnarhreiðrum en 500 metra nema brýna nauðsyn beri til, svo sem vegna lögmætra nytja sem ekki er hægt að stunda á öðrum árstíma. Þessi takmörkun á umferð gildir bæði þar sem ernir eru að búa sig undir varp og við þau hreiður sem orpið hefur verið í og eru með eggjum eða ungum.

 

Bergsveinn segir að vefmyndavélin og uppsetning hennar og búnaðurinn sem henni fylgir kosti væntanlega ekki undir milljóninni. Vélin verður í örbylgjusambandi við einhvern stað með góðri nettengingu sem verður að vera í sjónlínu frá henni.

 

Þegar búnaðurinn hefur verið settur upp verður sett slóð á myndavélina hér á Reykhólavefnum. Það verður nánar kynnt þegar þar að kemur.

 

Margvíslegan fróðleik um örninn, útbreiðslu hans og lífshætti er að finna á Arnarvefnum, sem er samstarfsverkefni Fuglaverndarfélags Íslands og Náttúrufræðistofnunar Íslands.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31