Vefurinn sjö ára og innlitin nálgast milljón
Reykhólavefurinn í núverandi mynd „fór í loftið“ á sumardaginn fyrsta árið 2008, sem þá bar upp á 24. apríl. Á þeim sjö árum sem síðan eru liðin eru heimsóknir (innlit) á vefinn að nálgast milljónina (um 975 þúsund) en flettingar komnar nokkuð á fjórðu milljón (liðlega 3,3 milljónir). Vefurinn var tengdur við teljarann Google Analytics um miðjan ágúst 2008 og þess vegna eru tölur um fyrstu mánuðina áætlaðar.
Heimsóknum (innlitum) á vefinn hefur fjölgað jafnt og þétt. Fjöldi heimsókna þessi sjö ár er um 11.600 á mánuði að meðaltali (áætlun varðandi fyrstu mánuðina skv. ofansögðu). Fyrstu þrjá heilu mánuðina sem vefurinn var tengdur við teljarann (september, október og nóvember 2008) voru heimsóknirnar 15.623 eða 5.208 á mánuði að meðaltali, en fyrstu þrjá mánuði þessa árs voru þær 54.428 eða 18.143 á mánuði að meðaltali.
Í upphafi var markmiðið með vefnum tvíþætt (og er enn): Annars vegar að þjóna fólkinu í Reykhólahreppi, hins vegar að leyfa öðrum að fylgjast lítið eitt með lífinu og starfinu í þessu fámenna sveitarfélagi við norðanverðan Breiðafjörð og halda nafni þess á lofti sem víðast.
Ef marka má fjölda heimsókna á vefinn virðist a.m.k. það síðarnefnda hafa tekist að einhverju leyti. Meðalfjöldi heimsókna á dag þessi sjö ár er langt yfir samanlögðum íbúafjölda Reykhólahrepps. Fyrstu þrjá mánuði þessa árs voru heimsóknir að meðaltali 605 á dag en íbúafjöldinn í Reykhólahreppi um síðustu áramót var 268 manns.
Áður en vefurinn var opnaður fyrir sjö árum var búið að tína inn á hann nokkrar fréttir til prufu. Fjöldi frétta í fréttadálkinum er á þessum tíma kominn nokkuð á fimmta þúsund, auk margs annars efnis á vefnum, svo sem fundargerða og tilkynninga, aðsends efnis og auglýsinga.
Jóhanna Ösp, sunnudagur 26 aprl kl: 09:37
Mjög flottur vefur. Hlynur að gera virkilega góða hluti hér :)