Tenglar

2. maí 2011 |

Vegaframkvæmdir vestra og eystra njóti forgangs

Frá atvinnumálafundinum á Ísafirði.
Frá atvinnumálafundinum á Ísafirði.
Um 150 manns víðs vegar af Vestfjörðum sóttu fund um atvinnumál, sem haldinn var á Ísafirði á laugardag undir yfirskriftinni Afl í auðlindum Vestfjarða. Að fundinum stóðu verkalýðsfélög og atvinnufyrirtæki til að vekja athygli á alvarlegri byggðaþróun á Vestfjörðum. Í þrettán framsöguerindum var fjallað um skiptingu skatttekna, nýtingu auðlinda, aðgengi að fjármagni, tækifæri, aðstæður og samkeppnisskilyrði atvinnufyrirtækja og leiðir til úrbóta.

 

Ráðherrarnir Jón Bjarnason og Ögmundur Jónasson sátu fyrir svörum auk Guðna A. Jóhannessonar orkumálastjóra, sem var fulltrúi iðnaðarráðherra. Einnig sátu fundinn og svöruðu spurningum fulltrúar viðskiptabankanna, Fjárfestingarsjóðs Íslands og Orkubús Vestfjarða.

 

Í máli Vífils Karlssonar hagfræðings kom fram, að stjórnvöld yllu verulegu ójafnvægi milli landsvæða með ráðstöfun skattfjár til starfsemi hins opinbera. Telur Vífill á grundvelli rannsókna sem hann hefur unnið, að landsbyggðin njóti í mun minna mæli ávinnings af ráðstöfun skattfjár en höfuðborgarsvæðið.

 

Ögmundur Jónasson samgönguráðherra lýsti því yfir, að mest væri þörfin fyrir samgönguframkvæmdir á Vestfjörðum og Austfjörðum og ættu framkvæmdir þar að njóta forgangs að vegafé.

 

 

Fundurinn samþykkti eftirfarandi ályktanir:

 

 

Um fjármagn og fjárfestingar

 

Sjá til þess að bankastofnanir sem ríkið á hlut í eða að fullu verði með sjálfstæða aðila staðsetta innan hvers fjórðungs sem hafa vald til að taka ákvarðanir í málefnum svæðisins, þannig að það verði virk nærþjónusta þar sem aðilar þekki staðhætti í hverju máli fyrir sig.

 

Leiðrétta það óréttlæti sem fylgir því að við leiðréttingu lána á skuldum vafin heimili sé verið að miða við fasteignamatsverð eigna en ekki raunvirði eigna.

 

Breyta þarf lögum þannig að tryggingarfélög geti ekki komið sér undan því að greiða réttlátar bætur fyrir tjón sem aðilar verða fyrir úti á landi með því að koma með endurmat eftir á.

 

Skorar á stjórnvöld að beita sér fyrir aukinni áherslu á lengra komin nýsköpunarverkefni á Vestfjörðum og beita orku og fjármagni sem liggur í stuðningsstofnunum og nýsköpunarsjóðum til að styðja við bakið á þeim. Þannig mætti auka samkeppnishæfni Vestfjarða, fjölga störfum og auka fjölbreytni atvinnulífs til skemmri og lengri tíma.

 

 

Um samkeppnisskilyrði

 

Fundurinn skorar á ríkisstjórn Íslands að jafna samkeppnisaðstöðu Vestfjarða á við aðra landshluta með því að fella niður tengigjald fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar.

 

Jafna þarf húshitunarkostnað á landinu.

 

Gerð verði athugun á því hvort hægt sé að koma Orkubúi Vestfjarða aftur í eigu heimamanna með það að markmiði að félagið starfi í þágu Vestfjarða af fullum krafti.

 

Óskað er eftir því að stjórnvöld komi á kerfi um jöfnun flutningskostnaðar fyrir fyrirtæki á landsbyggðinni. Slíkt kerfi þarf að leiða til beinnar lækkunar á flutningskostnaði fyrirtækja sem eru í mikilli fjarlægð frá útflutningshöfnum.

 

 

Um atvinnu og auðlindir

 

Fundurinn beinir því til stjórnvalda að efla rannsóknir, nýsköpun og hagnýta grunnmenntun á Vestfjörðum. Megináherslan snúi að atvinnustarfsemi og nýtingu þeirra auðlinda sem fjórðungurinn hefur upp á að bjóða. Nauðsynlegt er að tengja menntun við þekkingu í atvinnulífinu þannig að hún nýtist til atvinnuuppbyggingar á svæðinu. Með því virkjum við strax auðlindina sem býr í ungu fólki þegar við horfum til framtíðar. Horfum líka á aðra þætti svo ungt fólk sjá sér hag í að setjast hér að með góðri grunnþjónustu, fjölbreytni í atvinnulífi og umfram allt atvinnuöryggi. Standa þarf vörð um þann landbúnað sem er á Vestfjörðum, meðal annars með því að standa fast við hugmyndir um kjarnastæði þéttbýlis. Styðja þarf áform Fjórðungssambands Vestfirðinga um umhverfisvottun Vestfjarða.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31