Tenglar

7. desember 2011 |

Vegagerðin ætlar samt að halda sínu striki

Horft úr Kjálkafirði austanverðum í átt að Litlanesi í Múlasveit.
Horft úr Kjálkafirði austanverðum í átt að Litlanesi í Múlasveit.

Vegagerðin hyggst bjóða út endurbyggingu Vestfjarðavegar með þverun Mjóafjarðar og Kjálkafjarðar þrátt fyrir að Skipulagsstofnun telji verkið valda óbætanlegum skaða (sjá nánar næstu frétt hér á undan). Hreinn Haraldsson vegamálastjóri sagði í samtali við Stöð 2 í gærkvöldi, að þetta álit Skipulagsstofnunar raski ekki þeim áformum að bjóða út verkið núna í janúar. Vegagerðin muni halda sínu striki og sækja um framkvæmdaleyfi til Vesturbyggðar og Reykhólahrepps. Umrædd nýlagning er að langmestu innan marka Reykhólahrepps en vestasti hlutinn tilheyrir Vesturbyggð.

 

Hvað sem þessum útboðsáformum Vegagerðarinnar líður má allt eins búast við að kærumál og boltakast milli stofnana verði til þess að enn líði áratugir þangað til sunnanverðir Vestfirðir komist í viðunandi vegasamband við „meginlandið“ - ef af því verður þá nokkurn tímann. Reynslan af slíku málaþrasi fjölmörg undanfarin ár bendir eindregið til þess.

 

Viðbót:

 

Í færslu á bloggsíðu sinni í morgun segir Einar K. Guðfinnsson alþm. um þetta mál m.a.:

  • Heiðarlegast hefði það verið fyrir Skipulagsstofnun að segja einfaldlega í nýju áliti sínu um vegagerð á Vestfjarðavegi: Ekki leggja nýjan veg. Notið bara gömlu troðningana. 
  • Þetta álit stofnunarinnar er vitaskuld fullkomið hneyksli. Það er ekki að undra þó heimamenn tali um einelti af hálfu hennar þegar kemur að vegamálum á þessu svæði og bendi á að stofnunin standi í vegi fyrir vegagerð þar sem þörfin er brýnust.

Einnig:

  • Skipulagsstofnun leggst gegn þeirri vegagerð, sem boðar illt eitt varðandi vegagerð að öðru leyti á Vestfjarðavegi 60. Því eins og menn muna er krafa heimamanna sú að leiðin liggi um láglendið. Slíkt kallar á þveranir fjarða. Álit Skipulagsstofnunar gefur til kynna að stofnunin leggist þvert gegn öllu slíku. 
  • Sama máli gegnir um afstöðu stofnunarinnar til vegalagningar um Litlanes á þeirri leið sem nú er tilbúin til útboðs. Skipulagsstofnun er í raun að leggja til vegagerð sem kallar á leið sem er óöruggari og alls ekki í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til nútíma vegaframkvæmda. Er það með ólíkindum hvernig allar hugmyndir um vegagerð á Vestfjarðavegi 60 eru meðhöndlaðar. 
  • Það er því ekki að undra þó heimamenn séu gáttaðir á svona sjónarmiðum, núna þegar 21. öldin hefur hafið innreið sína fyrir áratug. Tillögur af þessu tagi eiga að heyra til fortíðinni en ekki nútíðinni og eru alls ekki í samræmi við þá framtíð sem íbúar Vestfjarða gera kröfur til þegar að vegamálum kemur.

 

07.12.2011  Skipulagsstofnun þversum gegn nýjum vegi

 

Bloggfærsla Einars K. Guðfinnssonar í heild

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31