Vegagerðin með opið hús á Reykhólum
Vegagerðin verður með opið hús í Reykhólaskóla á miðvikudag kl. 17-21 þar sem kynnt verður fyrirhuguð vegagerð milli Eiðis í Vattarfirði og Þverár í Kjálkafirði. Að mestu er þessi leið innan Reykhólahrepps en vestasti hlutinn tilheyrir Vesturbyggð. Framkvæmdin ásamt mati á umhverfisáhrifum hennar verður kynnt jafnframt því sem þar verður tekið við ábendingum og athugasemdum.
Tillaga að þessari framkvæmd og skýrsla um mat á umhverfisáhrifum liggja frammi til kynningar frá 26. júlí til 6. september á skrifstofum Reykhólahrepps og Vesturbyggðar. Einnig í Þjóðarbókhlöðunni og hjá Skipulagsstofnun. Frummatsskýrsla um framkvæmdina er aðgengileg hér á heimasíðu Vegagerðarinnar.
Allir hafa rétt á að kynna sér framkvæmdina og leggja fram athugasemdir. Þær skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 6. september til Skipulagsstofnunar, Laugavegi 166, 150 Reykjavík. Þar fást jafnframt nánari upplýsingar um mat á umhverfisáhrifum.
21.07.2011 Vinna við nýjan veg ætti að geta hafist á þessu ári