Vegamálin: Hugsa verður til framtíðarinnar
„Leið A hefur töluvert minni áhrif á umhverfið en leið B. Við getum ekki leyft okkur að líta framhjá umhverfisþáttunum. Ef við göngum of nærri náttúrunni verður lítið sem ekkert eftir fyrir komandi kynslóðir. Það verður að hugsa út í framtíðina þegar farið er í svona stór verkefni. Það verður að hugsa um samfélagið í heild“, segir Hrefna Jónsdóttir um mismunandi kosti í vegamálum í Reykhólahreppi sem hafa lengi verið umræðuefni og harðvítug deiluefni.
Hrefna segir mikilvægt að íhuga A-leiðina vel þar sem hún myndi auðga samfélagið í Reykhólahreppi og auka sjálfbærni þess. „Unga fólkið úr hreppnum vill margt koma til baka eftir nám“, segir hún, „en eina leiðin til að hægt sé að halda í unga fólkið er að auka atvinnumöguleika og þá sérstaklega við störf sem krefjast menntunar. Ég tel að sjávarfallavirkjun myndi auka möguleikann á að stækka núverandi fyrirtæki í hreppnum sem og opna dyr fyrir ný fyrirtæki á ýmsum sviðum.“
Í vistfræðiáfanga í námi sínu við Menntaskólann á Akureyri á liðnum vetri skrifaði Hrefna umhverfisskýrslu um vegamálin í Reykhólahreppi og þó fyrst og fremst um leið A. Heiti skýrslunnar er Þverun Þorskafjarðar og sjávarfallavirkjun. Smellið hér til að lesa skýrsluna (pdf).
Hrefna Jónsdóttir hefur alla tíð átt heima á Reykhólum. Hún er dóttir Steinunnar Ólafíu Rasmus og Jóns Árna Sigurðssonar og kveðst vera í hópi þess unga fólks sem langar að búa og starfa í sinni heimabyggð að námi loknu. Hrefna er nítján ára og núna að hefja síðasta veturinn sinn til stúdentsprófs í Menntaskólanum á Ísafirði.
Skýrslu Hrefnu er einnig að finna undir Sjónarmið / Aðsent efni í valmyndinni hér vinstra megin (Vegamálin: Hugsa verður til framtíðarinnar).
Hanna Lára, fimmtudagur 08 september kl: 12:42
Flott hjá þér Hrefna :)