5. september 2011 |
Vegamálin: Niðurstaða væntanleg í vikulok
Fjórðungsþing Vestfirðinga sem haldið var um helgina lýsir yfir ánægju með frumkvæði og sýndan vilja innanríkisráðherra til þess að höggva á þann hnút sem skapast hefur vegna uppbyggingar Vestfjarðavegar 60 í Gufudalssveit. Áformar ráðherra að tilkynna ákvörðun varðandi þennan vegarkafla á föstudag, 9. september. Fjórðungsþing leggur áherslu á að áhrif framkvæmda á samfélögin á sunnanverðum Vestfjörðum verði í forgangi og hvergi verði hvikað frá þeim markmiðum að koma á heilsárssamgöngum á láglendisvegi.