Tenglar

19. nóvember 2015 |

Vegleg gjöf frá gömlum vinum til Barmahlíðar

Anna og Haukur ásamt sonunum fimm, f.v. Tómas, Steingrímur, Hjörtur, Sverrir og Einar. Mynd frá síðustu jólum.
Anna og Haukur ásamt sonunum fimm, f.v. Tómas, Steingrímur, Hjörtur, Sverrir og Einar. Mynd frá síðustu jólum.
1 af 4

Heiðurshjónin Anna Þórarinsdóttir og Haukur Steingrímsson hafa fært Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Barmahlíð á Reykhólum veglega gjöf í tilefni af 90 ára afmæli þeirra hjóna í næstliðnum ágústmánuði.

 

Anna sem er fædd 23. ágúst 1925 ólst upp á Reykhólum, dóttir hjónanna Steinunnar Hjálmarsdóttur og fyrri manns hennar, Þórarins Árnasonar. Hún er e.t.v. best þekkt hér um slóðir sem systir Lilju á Grund og flestir sem eldri eru í héraðinu muna eftir henni við hlið systur sinnar í réttakaffinu í eldhúsinu á Grund.

 

Haukur maður Önnu er viku yngri en hún, fæddur 30. ágúst 1925. Hann er húsasmiður ættaður frá Blönduósi. Þau kynntust á Reykhólum þegar hann var hér við að reisa Tilraunastöðina ásamt fleirum árið 1946.

 

Þau hjónin hafa búið í Kópavoginum alla sína búskapartíð og komu upp fimm drengjum. Þeir Tómas, Steingrímur, Hjörtur, Sverrir og Einar hafa allir sótt mikið hingað vestur, fyrst sem ungir piltar til almennra sveitastarfa á Reykhólum og Grund en síðar til annarra starfa, t.d. reri Tómas hér á grásleppu um árabil. Núna koma þeir helst til sækja sveitina sína heim, tína ber á haustin og eru til afslöppunar í Reykhólabænum sem gegnir orðið hlutverki sumarbústaðar.

 

Anna segir að síðan hún flutti í Kópavoginn hafi hún komið vestur á hverju sumri nema árið 1950, sumarið þegar Steini fæddist, og síðan í sumar er leið, en núna er það heilsan sem er farin að setja strik í reikninginn.

 

„Ég sakna þess að komast ekki vestur,“ segir Anna eldhress í anda, „en þess í stað vildi ég láta eitthvað gott af mér leiða því mér er ákaflega hlýtt til minnar heimasveitar. Við hjónin urðum sammála um að þiggja ekki gjafir í tilefni afmælis okkar í sumar, heldur hafa frammi bauk til handa Barmahlíð.“

 

Skemmst er frá því að segja að um 100 þúsund krónur söfnuðust í baukinn og sá Áslaug B. Guttormsdóttir formaður Barmahlíðarnefndar um að kaupa vegleg Yamaha-hljómtæki með útvarpi og CD-spilara að andvirði 90 þúsund krónur. Tækin eru í hæsta gæðaflokki og var keypt með þeim snúra þannig að hægt er að tengja þau við tölvu, iPad og gsm-síma og hlusta þannig beint á efni, bæði tónlist og hljóðbækur. Einnig létu hjónin fylgja ríflega tuttugu CD-diska með ýmiss konar tónlist. Fyrir afganginn eða um 10 þúsund krónur keypti Áslaug síðan fimm þvottakörfur í tveimur stærðum fyrir þvottahús heimilisins.

 

Helgu Garðarsdóttur hjúkrunarforstjóra í Barmahlíð hefur verið færð gjöfin. Hún og Áslaug vilja koma á framfæri þakklæti sínu fyrir hönd Barmahlíðar fyrir þessa veglegu gjöf og hlýjuna sem henni fylgir.

 

Mynd nr. 2 er frá afhendingu gjafarinnar í Barmahlíð. Þar eru þær Helga Garðarsdóttir hjúkrunarforstjóri ásamt dóttur sinni, Evu Rakel Másdóttur, og Áslaug B. Guttormsdóttir, formaður Barmahlíðarnefndar.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31