Vegur með sjávarfallavirkjun og Reykhólar í þjóðbraut?
Sjávarfallavirkjun í mynni Þorskafjarðar, sem jafnframt yrði brú á nýjum Vestfjarðavegi, er núna til umræðu sem sáttaleið í deilum um framtíðarlegu vegarins um Gufudalssveit í Reykhólahreppi. Verstu hindranir þess að byggðir á sunnanverðum Vestfjörðum tengist öðrum landshlutum með nútímavegi eru Hjallaháls og Ódrjúgsháls. Deilur hafa verið um þá tillögu Vegagerðarinnar að losna við hálsana með því að fara með nýjan veg yfir Gufufjörð og Djúpafjörð og um vestanverðan Þorskafjörð gegnum Teigsskóg (leið B). Fjallað var um þetta í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Sá möguleiki er til skoðunar í sérstakri sáttanefnd hvort raunhæft sé að leysa málið með sjávarfallavirkjun sem jafnframt yrði brú. Tillagan er meistaraverkefni Bjarna M. Jónssonar sérfræðings í auðlindastjórnun. Hann segir svæðið henta vel fyrir 60 megavatta virkjun sem framleiddi um 180 gígavattstundir á ári. Slík virkjun gæti farið að skila hagnaði eftir tíu ár í rekstri og því gæti vegurinn orðið eins konar bónus.
Helstu rökin gegn vegagerð þarna eru röskun á lífríki í fjörum en Bjarni vill meina að áhrif sjávarfallavirkjunar á fjörurnar verði lítil. Hann bendir á að virkjunin yrði ekki stífla heldur yrði reynt að láta eins mikið af vatninu og unnt væri ganga inn og út úr firðinum. Útfallinu yrði þó seinkað aðeins, eða um klukkustund, sem yrðu helstu umhverfisáhrifin.
Þverun með brú yfir mynni Þorskafjarðar (með sjávarfallavirkjun eða án hennar) frá Árbæ yst á Reykjanesi yfir á Skálanes þýddi að Reykhólar kæmust í alfaraleið. Núna er 14 km „útúrkrókur“ frá Vestfjarðavegi (þjóðveginum milli landshluta) og út að Reykhólum.
Hvort þetta verkefni hlýtur brautargengi segir Bjarni að sé pólitísk ákvörðun. Hann bendir hins vegar á að menn verði að velja milli þessara kosta. Ekki verði bæði ráðist í vegagerð um hina umdeildu veglínu (leið B og Teigsskóg) og sjávarfallavirkjun yst í firðinum.
Á kortinu á mynd 2 (skjáskot úr frétt Stöðvar 2) er núverandi vegur merktur með hvítri línu, leið B með grænni en þverun í mynni Þorskafjarðar með rauðri. Smellið á myndirnar / kortin til að stækka.
Smellið hér til að sjá fréttina.
Sjá einnig nokkrar af þeim fréttum sem birst hafa hér á Reykhólavefnum um vegamál í héraðinu og tengjast með einum eða öðrum hætti þverun í mynni Þorskafjarðar:
30.08.2011 Val milli náttúrunnar og lífsmöguleika fólksins?
08.07.2011 Skipar samráðshóp um vegagerð í Reykhólahreppi
10.04.2011 Gæti Þorskafjarðarvirkjun annað orkuþörf Vestfjarða?
03.03.2011 Niðurstöður viðhorfskönnunar til leiðarvals
27.04.2010 Meistarapróf um virkjun sjávarfalla á Vestfjörðum
16.03.2010 Kynning á þverun fjarða og sjávarfallavirkjun
30.11.2009 180 megavatta hámarksafl frá Þorskafjarðarvirkjun
26.11.2009 Möguleikar á virkjun sjávarfalla kynntir
Áhugasamir um vegamál í héraðinu geta einnig slegið orðhlutann Vestfjarðaveg inn í leitarlínuna efst til hægri hér á vefnum. Þá ættu að koma upp 60 fréttir og 8 greinar (Sjónarmið / aðsent efni). Fleiri orðhluta má nota í leitinni til að finna enn fleiri fréttir og greinar um þessi efni.
Athugasemd / árétting:
Í fréttinni á Stöð 2 er talað um Vestfjarðaveg „um Barðaströnd“. Þetta er algeng missögn á síðari árum. Iðulega er í fréttum talað um Reykhóla „á Barðaströnd“ þó að nálægt 150 km vegalengd sé frá Reykhólum og vestur á Barðaströnd. Nokkuð á annað hundrað kílómetra vegalengd er frá botni Þorskafjarðar vestur á Barðaströnd. Hins vegar er aldrei talað um Patreksfjörð eða Tálknafjörð „á Barðaströnd“ (þessir bæir eru í Barðastrandarsýslu eins og Reykhólar og Reykhólahreppur allur). Þaðan er samt mun styttra á Barðaströndina, sem er landsvæðið milli Vatnsfjarðar og Sigluneshlíða (mynd nr. 4). Flókalundur er mjög innarlega við Vatnsfjörð vestanverðan og getur því naumast eða alls ekki talist á Barðaströnd. Barðastrandarsýsla (Austur- og Vestur-Barðastrandarsýsla) er kennd við Barðaströndina rétt eins og Skaftafellssýsla er kennd við Skaftafell í Öræfum. Samt dettur víst engum í hug að segja að Kirkjubæjarklaustur sé í Skaftafelli.
Guðjón D. Gunnarsson, mivikudagur 31 gst kl: 12:39
Það er sorglegt ef enn og aftur á að drepa á dreif vegalagningu vestur með óraunhæfum skýjaborgum. Til að þróa svona virkjun, væri eðlilegast að byrja í Kóngavökunum.