Tenglar

21. janúar 2009 |

Vegurinn frá Þorskafirði í Vatnsfjörð verði í forgangi

Samgöngunefnd Fjórðungssambands Vestfirðinga vekur athygli á stöðu framkvæmda í vegamálum á Vestfjörðum og mikilvægi þess að byggja upp þá hluta vegakerfisins sem setið hafa á hakanum um mörg undanfarin ár. Nefndin leggur áherslu á, að á að auk þeirra verkefna, sem þegar er byrjað á og treysta verður að allt kapp verði lagt á að ljúka, verði forgangsröðun verkefna með þeim hætti að fremsta áhersla verði lögð á vegagerð á Vestfjarðavegi 60, frá Þorskafirði til Vatnsfjarðar. Öll leiðin verði tekin á áætlun næstu tveggja til þriggja ára og þegar á þessu ári verði hafist handa við þá áfanga sem tilbúnir eru til útboðs. Áfangar á þessari leið eru þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar frá Skálanesi í Þorskafjörð, endurnýjun vegar úr Vatnsfirði í Kjálkafjörð, endurnýjun vegar úr Kjálkafirði í Skálmarfjörð og þverun Þorskafjarðar.

 

Nefndin segir að Vestfirðingar hafi um áratugaskeið beðið eftir að lokið væri uppbyggingu nútíma vegasamgangna innan fjórðungsins og tengingu við aðra landshluta. Við ákvarðanir um vegaframkvæmdir næstu tvö árin verði að leggja á það höfuðáherslu, að byggja upp þá hluta vegakerfisins sem setið hafa á hakanum um mörg undanfarin ár og standa langt að baki vegum í öðrum landshlutum.

Nefndin bendir á að margoft hafi áætlanir um úrbætur í samgöngumálum Vestfjarða lent í niðurskurði og verið frestað af ýmsum ástæðum. Síðast fyrir tveimur árum var framkvæmdum á Vestfjörðum frestað vegna þenslu í þjóðfélaginu, jafnvel þó svo að þeirrar þenslu hafi hvergi orðið vart í atvinnuvegum Vestfirðinga. Nú er boðað að áður áætlaðar framkvæmdir verði skornar niður vegna samdráttar í samfélaginu. Mjög er farið að reyna á biðlund Vestfirðinga eftir nútímalegum samgöngum á landi og því sé brýnt að samgönguyfirvöld hafi þessar staðreyndir í huga þegar vegaframkvæmdir verða ákveðnar á þessu og næsta ári, segir í ályktun samgöngunefndar.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31