20. september 2009 |
Vegurinn í vesturhluta Reykhólahrepps nánast ófær
Þjóðvegurinn í vesturhluta Reykhólahrepps er nánast ófær á köflum, að því er fram kom í fréttum Ríkisútvarpsins. Helgi Páll Pálmason mjólkurbílstjóri fer þar um flesta daga og segir fjölda fólks hafa lent í vandræðum á leiðinni. Um 80 kílómetrar af leiðinni milli Bjarkalundar og Patreksfjarðar eru malarvegur sem hefur spillst mjög í rigningum að undanförnu. Þá hefur það bæst við að umferðin hefur aukist síðustu daga þar eð siglingar Breiðafjarðarferjunnar Baldurs liggja niðri meðan skipið er í siglingum milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar.
Eiður Thoroddsen, rekstrarstjóri Vegagerðarinnar á Patreksfirði, sagði í samtali við Ríkisútvarpið í dag, að sparnaðaraðgerðir hefðu komið niður á viðhaldi malarvega en þeir séu þó heflaðir eftir þörfum. Ekki hafi verið hægt að hefla vegna rigningar en um leið og þornar verði farið af stað.