3. desember 2009 |
Vegurinn í vesturhluta hreppsins skal í umhverfismat
Umhverfisráðherra hefur staðfest þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að kaflinn milli Eiðis í Vattarfirði og Þverár í Kjálkafirði á Vestfjarðavegi 60 skuli háður mati á umhverfisáhrifum. Í úrskurðarorðum Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra segir að ákvörðun þessi sé staðfest vegna þess að framkvæmdin kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því háð mati á umhverfisáhrifum.
„Rétt er að benda á að ekki er nauðsynlegt að framkvæmdir muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif heldur er nægilegt að þær kunni að hafa þau. Hvað hugsanleg umhverfisáhrif hinnar kærðu framkvæmdar áhrærir vísast sérstaklega til umfangs og stærðar framkvæmdanna“, segir meðal annars í niðurstöðu ráðherra.
Einar Kristinn Guðfinnsson, þingmaður í NV-kjördæmi, bar umhverfisráðherra á brýn á Alþingi fyrr í vikunni að hafa farið á svig við lög með því að draga fimm mánuði umfram lögbundinn frest að úrskurða hvort umhverfismat væri skylt á umræddum vegarkafla.
Smellið á kortið til að stækka það.
Sjá einnig:
15.05.2009 Vegarlagningu verði flýtt með skiptingu í áfanga