Tenglar

2. mars 2015 |

Veislukostur með eyjaívafi og vínið á Flateyjarverði

Séð yfir hluta Flateyjar / Árni Geirsson.
Séð yfir hluta Flateyjar / Árni Geirsson.

Vetrarhátíð Framfarafélags Flateyjar verður haldin laugardagskvöldið 14. mars í félagsheimili Hestamannafélagsins Fáks í Víðidal. Segja má að hátíð þessi sé hápunkturinn í félagslífi Flateyinga, Inneyinga og velunnara Flateyjar á hverjum vetri, en hún hefur verið haldin með þessu sniði í meira en tíu ár. Venjan er að húsin í Flatey standi fyrir hátíðinni og eitt hús tilnefnt hverju sinni til að halda næstu hátíð. Að sjálfsögðu setur þessi tilhögun ákveðið mark á hverja hátíð enda húseigendur með mismunandi skoðanir varðandi skemmtanahald, umgjörð, matarrétti og tónlistarflutning. Þetta hefur tekist afar vel og hátíðirnar jafnan vel sóttar.

 

Á sérhverri Vetrarhátíð er útnefnt hús sem hlýtur umhverfisverðlaun Framfarafélags Flateyjar. Þetta þykir jafnan mikill heiður enda eru húseigendur duglegir að halda húsum sínum við og hafa fallegt í kringum sig.

 

Margt er til gamans gert á þessum hátíðum, eins og að líkum lætur, söngur mikill og góður. Fyrir kemur að skemmtibragur sé fluttur til að halda á lofti fréttum ársins og stríða svolítið samferðafólki og nágrönnum í græskuleysi þannig að allir hafi gaman af. Bryddað verður upp á ýmsum öðrum skemmtilegheitum sem endranær og fá veislugestir að sýna bæði sönghæfileika sína, þekkingu og kunnáttu. Margt fallegra happdrættisvinninga er komið í hús og happdrættismiðinn innifalinn í miðaverði.

 

Veislumaturinn á Vetrarhátíðum er frábær, að sögn þeirra sem til þekkja, einatt þjóðlegur viðurgjörningur; vínið og önnur drykkjarföng á lágu „Flateyjarverði“. Salurinn í félagsheimili Fáks er mjög skemmtilegur, danssvæði gott, flott svið, rúmt um borðin og sérstakt horn fyrir þá sem vilja stinga saman nefjum og ræða málin.

 

Til að nota daginn sem best hefur verið venja að halda aðalfundi Framfarafélags Flateyjar og Flateyjarveitna á þessum tiltekna laugardegi. Þetta er með ráðum gert því að þeir sem langt þurfa að sækja og ferðast landshluta milli geta þar með slegið þrjár flugur í einu höggi: Sótt aðalfund Framfarafélagsins og aðalfund vatnsveitunnar sinnar og lyft sér upp á Vetrarhátíðinni um kvöldið. Þetta fyrirkomulag hefur mælst vel fyrir meðal húseigenda og ábúenda í Flatey.

 

Miðasalan á Vetrarhátíðina er komin á flug og biður Kata fólk að skrá sig í netfanginu katrbald@gmail.com sem allra fyrst svo að auðveldlega gangi að raða til borðs.

 

Vetrarhátíðarnefnd óskar gestum góðrar veisluskemmtunar og sendir Flateyjarkveðjur.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Mars 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31