Vel viðrar fyrir brennu og áramótaskotelda
Samkvæmt spá Veðurstofunnar og almennum horfum í héraði ætti að viðra vel á brennugesti við Sladdanaust neðan við Reykhólaþorp í kvöld, en kveikt verður í kestinum klukkan hálfníu. Hitinn er og verður nálægt frostmarki eða þar rétt fyrir neðan, hægur austlægur vindur og kannski smávegis él á stangli. Seint í kvöld og um miðnættið þegar skoteldagleðin er allra mest gerir Veðurstofan ráð fyrir því að létt hafi til, þannig að flugeldar ættu ekki að hverfa í skýjamóðu.
Björgunarsveitin Heimamenn í Reykhólahreppi skaffar flugelda sem endranær sér til fjáröflunar. Þeir fást í húsi björgunarsveitarinnar við Suðurbraut rétt neðan við Reykhólaþorp í dag, gamlársdag, frá klukkan eitt til fjögur síðdegis. Minnt skal á hið sjálfsagða, að fólk reyni að hlífa blessuðum dýrunum eftir fremsta megni frá því að verða að neinu ráði vör við áramótaskothríð mannfólksins.