Vélsleðaslys á Þorskafjarðarheiði
Björgunarsveitir og þyrla Landhelgisgæslu eru nú á slysstað á Þorskafjarðarheiði þar sem vélsleðamaður ók fram af hengju. Verið er að búa um manninn, en fregnir af slysstað herma að hann sé illa fótbrotinn. Verður hann fluttur með þyrlunni á sjúkrahús í Reykjavík. Þetta kemur fram á vef Slysavarnafélagsins Landsbjargar núna laust fyrir kl. 14. Önnur frétt þar á vefnum skömmu áður er á þessa leið:
Björgunarsveitir frá Hólmavík, Reykhólum og Búðardal hafa verið kallaðar út vegna slyss á Þorskafjarðarheiði sunnanverðri. Um er að ræða vélsleðamann sem ók fram af hengju. Maðurinn var einn á ferð og hringdi sjálfur eftir aðstoð. Segist hann vera illa fótbrotinn og að ástand hans fari versnandi. Þyrla Landhelgisgæslunnar var einnig kölluð út og er hún á leið á slysstað.
► Vefur Slysavarnafélagsins Landsbjargar