Tenglar

30. desember 2016 | Umsjón

Venni áttræður

Óli Már, Halldór og Áshildur.
Óli Már, Halldór og Áshildur.

Áttræður er í dag Halldór D. Gunnarsson í Króksfjarðarnesi (jafnan kallaður Venni í daglegu tali). Hann er frá Gilsfjarðarmúla ekki langt þar fyrir innan, einn ellefu systkina sem öll komust til fullorðinsára og reyndar miklu meira. Venni starfaði nánast alla tíð í Króksfjarðarnesi, fyrst hjá Kaupfélagi Króksfjarðar og síðan sem bankaútibússtjóri í áratugi.

 

Halldór Dalkvist Gunnarsson ólst upp við almenn sveitastörf heima í Múla, en árið 1954 þegar hann var á átjánda ári réðst hann til starfa hjá Kaupfélagi Króksfjarðar. Þar vann hann síðan með litlum hléum þangað til hann varð útibússtjóri Samvinnubankans í Króksfjarðarnesi. Tvo vetur var hann í Samvinnuskólanum en vann í kaupfélaginu í Nesi sumarið á milli, og síðan var hann rúmlega eitt ár í borginni Södertälje í Svíþjóð og starfaði þar hjá sænsku samvinnuhreyfingunni (Konsum). Eftir heimkomu þaðan árið 1960 vann hann áfram hjá Kaupfélagi Króksfjarðar fram til 1972.

 

Þegar Samvinnubankinn opnaði útibú í Króksfjarðarnesi 5. júní 1972 var Venni ráðinn til að veita því forstöðu. Hann var síðan útibússtjóri í Nesi samfleytt til ársloka 2006 eða þriðjung aldar og þremur mánuðum betur, þó ekki fyrir sama banka alla tíð, því að þar urðu eigendaskipti oftar en einu sinni.

 

Þegar hann lét af starfi sjötugur um áramótin 2006-2007 tók Sóley Vilhjálmsdóttir mágkona hans og samstarfsmaður í fjölda ára við útibússtjórastöðunni í Nesi og gegndi henni allt þar til Landsbankinn lokaði útibúinu snemmsumars 2012. Eftir það annaðist hún afgreiðslu bankans á Reykhólum einu sinni í viku fram á vordaga 2015.

 

Ekki fer hjá því að næsta margir hugsa með þakklæti, hlýju og virðingu til bankans síns í Nesi og þeirrar einstöku ljúfmennsku og lipurmennsku sem þar ríkti alla tíð.

 

Eiginkona Halldórs D. Gunnarssonar er Áshildur Vilhjálmsdóttir. Þau eiga ekki börn saman (við vorum orðin svo gömul þegar við tókum saman, segir hann) en Áshildur átti fyrir sex börn, flest uppkomin.

 

Myndin sem hér fylgir er úr ritinu Tröllatunguætt, væntanlega tekin nálægt miðjum níunda áratug síðustu aldar. Þar eru þau Venni og Áshildur ásamt Óla Má Hrólfssyni, yngsta barni Áshildar.

 

Þau Venni og Áshildur eru að heiman á afmælisdaginn.

 

Systkinin frá Gilsfjarðarmúla eru samtals 882 ára (28. ágúst 2012).

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30