Verð á tilbúnum áburði lækkar
„Áburður er mjög stór liður í búrekstrinum. Á móti lækkun hans kemur að bændur hafa ekki verið að fá hækkanir á launaliðnum. Það eru margir liðir sem skipta máli í búrekstrinum,“ segir Guðný Helga Björnsdóttir, bóndi á Bessastöðum við Hrútafjörð og varaformaður Landssambands kúabænda, um lækkun á verði tilbúins áburðar. Sparnaður upp á hundruð þúsunda fyrir meðalkúabú felst í þeirri lækkun sem þegar liggur fyrir.
Þetta kemur fram í frétt Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu í dag.
Mestu áburðarkaupin fara fram fyrstu mánuði ársins og fram á vor. Áburðarsalar eru að gefa út verðskrár sínar um þessar mundir. Þær eru mjög ólíkar. Þannig hefur Sláturfélag Suðurlands, sem flytur inn Yara-áburð, tilkynnt 7% lækkun, Fóðurblandan/Áburðarverksmiðjan lækkar um 8% og Búvís á Akureyri lækkar verðskrá um 15% að meðaltali. Þar fyrir utan eru ýmsir afslættir sem miðast við greiðslukjör. Þannig býður SS upp á 8% afslátt ef greitt er fyrirfram fyrir 15. mars og Fóðurblandan býður 8% staðgreiðsluafslátt.
Verðlækkun á olíu virðist lítið skila sér inn í áburðarverðskrána að þessu sinni. SS segir að lækkunin skýrist mest af breytingum á gengi. Fóðurblandan nefnir gengisbreytingar og hagstæðari samninga. Búvís segir að 15% lækkunin sé vegna verðlækkana á heimsmarkaði.