Verðskrár Orkubús Vestfjarða hækkuðu um áramótin
Verðskrá fyrir raforkudreifingu
Verðskrá fyrir raforkudreifingu hækkaði að jafnaði um 10%. Tengigjöld eru óbreytt að sinni. Hækkun þessi er m.a. rökstudd með vísan til verðlagshækkana frá síðustu breytingu verðskrárinnar 1. mars 2009. Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 6,4% síðustu 10 mánuði. Ennfremur er vísað til 10% hækkunar á flutningsgjaldskrá Landsnets 1. ágúst síðastliðinn en sú hækkun kallar á rúmlega 3% hækkun á dreifigjaldskrám OV til að mæta útgjöldum af þeim sökum. Einnig er bent á að tekjur OV af raforkudreifingu hafa alla tíð verið vel undir leyfilegum tekjumörkum en með þessari hækkun færist OV örlítið nær tekjumörkunum.
Verðskrá fyrir rafmagnssölu
Verðskrá fyrir rafmagnssölu hækkaði að jafnaði um 6%. Hækkun þessi er rökstudd með vísan til boðaðrar hækkunar Landsvirkjunar um 4,4% núna hinn 1. janúar og verðlagshækkana seinni hluta árs 2009. Miklar framkvæmdir eru fyrirhugaðar í Mjólkárvirkjun og af þeim sökum er hækkun ívið meiri en verðlagsforsendur gefa tilefni til. Þrátt fyrir þessa hækkun er OV með lægra auglýst verð en Orkusalan og HS-Orka.
Verðskrá fyrir hitaveitur
Verðskrá fyrir hitaveitur hækkaði að jafnaði um 8%. Tengigjöld eru óbreytt að sinni. Hækkun þessi er m.a. rökstudd með vísan til verðlagshækkana frá síðustu breytingu verðskrárinnar 1. mars 2009. Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 6,4% síðustu 10 mánuði.
Þá er ennfremur bent á að Orkubú Vestfjarða boraði vinnsluholu fyrir heitt vatn í Tungudal við Skutulsfjörð á haustmánuðum 2008. Borverkið kostaði um 180 milljónir króna en árangur af borun varð því miður enginn. Af láni Orkusjóðs til verksins voru 90 milljónir felldar niður en mismuninn, 90 milljónir, þurfti Orkubú Vestfjarða að taka á sig.
Verðskrárnar eru birtar á heimasíðu Orkubús Vestfjarða.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkubúi Vestfjarða.