Tenglar

19. nóvember 2015 |

Verkefni sveitarfélagsins að taka betur utan um íbúana

Séð yfir hluta Flateyjar / Árni Geirsson.
Séð yfir hluta Flateyjar / Árni Geirsson.

Sveitarstjórn Reykhólahrepps leggst gegn því að stjórnsýsla Flateyjar færist til Stykkishólmsbæjar. Þetta var bókað á síðasta fundi sveitarstjórnar, þegar tekið var fyrir erindi frá íbúum í Flatey varðandi viðhorf sveitarstjórnar til þess að stjórnsýsla Flateyjar færist til Stykkishólms. Í bókun sveitarstjórnar segir:

 

Lagt er fram erindi 6 íbúa Flateyjar og eru það allir íbúar eyjunnar sem þar hafa lögheimili og njóta þjónustu sveitarfélagsins. Í Flatey eru mörg hús, flest í eigu íbúa annarra sveitarfélaga og njóta því takmarkaðrar þjónustu hjá sveitarfélaginu, t.d. í formi skipulags-, vatnsveitu- og sorpþjónustu. Þá á einn íbúi í viðbót lögheimili í eyjunum.

 

Miklir hagsmunir eru fólgnir í því að stjórnsýsla um Flatey (Flateyjarhrepp hinn forna) sé í höndum Reykhólahrepps. Flatey er órjúfanlegur þáttur í sögu landsvæðisins sem nú er Reykhólahreppur, bæði í ættfræðilegu og menningarlegu tilliti. Reykhólahreppur á mikið land í Flatey og myndi ekki hafa hagsbót af því að Stykkishólmsbær færi með stjórnsýslu eyjunnar. Þá markar eyjan einnig það svæði sem heyrir undir Reykhólahrepp í víðari skilningi, þ.e. undirstaða þorpsins á Reykhólum veltur á því að Þörungaverksmiðjan geti sótt um eyjarnar þang og þara.

 

Sveitarstjórn Reykhólahrepps á erfitt með að sjá grundvöll fyrir því að það gæti komið íbúum Flateyjar betur ef stjórnsýsla eyjunnar heyrði undir Stykkishólmbæ. Íbúar í Flatey sækja þjónustu í Stykkishólm, verslanir o.fl. Það á líka við um aðra íbúa sveitarfélagsins þegar þeir leita til Búðardals, Hólmavíkur eða Reykjavíkur. Þeim þáttum sem falla undir þjónustu sveitarfélags hefur Reykhólahreppur sinnt eftir bestu getu, eins og félagsþjónustu, þjónustu byggingafulltrúa o.fl. og hafa íbúar ekki þurft að sækja þá þjónustu annað. Alltaf má gera samninga á milli sveitarfélaga um tiltekna þjónustu, henti það íbúum betur, það gæti átt við um félagsstarf aldraðra o.þ.h.

 

En betur má ef duga skal og hafa íbúar með erindi sínu komið á framfæri við sveitarstjórn að þeim finnist þeir ekki tilheyra sveitarfélaginu að fullu. Það verður því verkefni sveitarfélagsins að taka betur utan um íbúana og gera þá að meiri þátttakendum í daglegri stjórnsýslu og tekur sveitarstjórn því verkefni fagnandi og mun gera sitt besta.

 

Sjá einnig:

18. sept. 2015  Hugleiðingar um stjórnsýslu í Flatey

10. sept. 2015  Engin formleg ósk borist

27. ágúst 2015  Opið bréf til sveitarstjórnar og fleiri varðandi Flatey

24. ágúst 2015  Vilja að Flatey fari undir Stykkishólm

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jl 2024 »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31