Verkefninu Sauðamjólk! hrundið af stað
Ekki hefur farið mikið fyrir afurðum úr mjólk íslensku sauðkindarinnar á borðum landsmanna síðustu hundrað árin eða svo. Það gæti þó orðið breyting á bráðlega því Landssamtök sauðfjárbænda (LS) hafa sett af stað verkefnið Sauðamjólk! og óska eftir sauðfjárbændum sem eru áhugasamir um að mjólka ær sínar.
„Okkur langar til þess að vinna að því að það verði til afurðir úr sauðamjólk hér á innanlandsmarkaði. Við erum fyrst og fremst að horfa á osta, þá mygluost. Við vitum að það er eftirspurn eftir honum en íslenskur sauðaostur hefur ekki verið í boði í nokkur ár,“ segir Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri LS, í Morgunblaðinu í dag.
Sauðamjólk er miklu feitari en kúamjólk og hefur hærra prótein- og þurrefnisinnihald, hún þykir því henta vel til ostagerðar og fyrir þá sem eru með kúamjólkuróþol.
Sigurður segir að vonast sé til að fá að minnsta kosti fimm framleiðendur í verkefnið, hvern með einhverja tugi af ám. „Við erum með þessu verkefni að finna þá sem hafa áhuga og þá hvort þeir vilji leggja mjólkina inn í mjólkursamsölu eða þróa vöruna sjálfir og selja beint frá býli.“
Verkefnið Sauðamjólk! er unnið í samstarfi LS, Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins og Matís. Sigurður segir að þrír áhugasamir bændur hafi þegar haft samband en frestur til að sækja um í verkefnið er til 17. apríl.
- Glefsur úr frétt í Morgunblaðinu 27. mars 2014.