Tenglar

27. júní 2012 |

Verksmiðja við Langavatn rísi í fullri sátt

Jón Árni á lóðinni þar sem vinnsluhúsið á að rísa við Suðurbraut skammt neðan við þorpið á Reykhólum.
Jón Árni á lóðinni þar sem vinnsluhúsið á að rísa við Suðurbraut skammt neðan við þorpið á Reykhólum.
1 af 2

„Smiðirnir koma væntanlega um eða eftir helgi og þá verður slegið upp fyrir hringnum í grunninum, platan steypt viku seinna og upp úr því förum við að byggja,“ segir Jón Árni Sigurðsson á Reykhólum. Fyrirtæki hans, Gullsteinn ehf., fékk í fyrri viku úthlutað lóð að Suðurbraut 3 rétt neðan við Reykhólaþorp þar sem reist verður hús fyrir þurrkun og mölun á þara til notkunar í þaratöflur, fæðubótarefni sem Gullsteinn framleiðir undir heitinu Pure Kelp.

 

Framleiðslan á töflunum fer fram í húsinu þar sem útibú KKK á Reykhólum var á sínum tíma og verður þar enn um sinn. Fyrirhugað er hins vegar að öll vinnslan flytjist í fyllingu tímans í byggingu sem ætlunin er að reisa neðan við Langavatn á lóð sem vilyrði fékkst einnig fyrir um leið og lóðinni við Suðurbraut var úthlutað.

 

Brynjólfur Smárason verktaki frá Borg hefur þegar gengið frá grunninum við Suðurbraut þannig að hann er tilbúinn fyrir smiðina. Þegar platan er klár verður flutt þangað skemma sem er úti á Skerðingsstöðum, sett niður á grunninn og stækkuð.

 

 

Stefnt að öflun fleiri þörungategunda

 

Þörungamjölið sem Gullsteinn notar nú í fæðubótartöflurnar kemur frá Þörungaverksmiðjunni á Reykhólum en það er unnið úr hrossaþara og klóþangi.

 

Ætlun Jóns Árna er að afla fleiri þörungategunda úr Breiðafirði til eigin vinnslu, bæði beltisþara og marínkjarna, og nota það mjöl til íblöndunar þannig að innihaldsefni verði í fullkomnara jafnvægi og fylgi á þann hátt óskum sem borist hafa frá kaupendum erlendis.

 

 

Vinnsla við Suðurbraut til bráðabirgða

 

„Það eru nokkrar ástæður fyrir því að við förum út í þetta við Suðurbrautina núna. Sú helsta er að undirbúningur stærri verksmiðju á lóðinni við Langavatn og síðan framkvæmdir þar taka langan tíma. Þar verður byggt á mjög viðkvæmu svæði. Þess vegna ætlum við að vanda okkur mikið varðandi teikningar og annan undirbúning og gera allt í fullri sátt við náttúruna og heimafólkið. Ekki verður farið út í þetta öðruvísi,“ segir Jón Árni.

 

Fyrir lóðinni við Langavatn er skrifað félag í Reykjavík sem ber nafnið Ísland, hvar er þín fornaldarfrægð ehf. Það félag annast nú þegar markaðssetningu á þaratöflunum og þegar þar að kemur á það að taka við framleiðslunni af Gullsteini ehf. Hins vegar mun framleiðsla á hundanammi og kattanammi, sem hófst á Reykhólum fyrir nokkrum misserum, verða í höndum Gullsteins eftir sem áður.

 

 

Þurrkun við lægra hitastig og minna joð-innihald

 

„Það sem við ætlum að byrja á núna í húsinu hér við Suðurbraut er að þurrka þarann við miklu lægra hitastig en gert er í Þörungaverksmiðjunni þar sem við fáum mjölið núna. Ef þurrkað er við lægri hita varðveitast andoxunarefnin í þaranum betur og það myndi auðvelda markaðssetninguna. Líka hefur komið í ljós að viðskiptavinir erlendis vilja að beltisþari verði einnig notaður í mjölið. Við leggjum mikla áherslu á hann í þessu sem við erum að byrja á núna.

 

Í Bandaríkjunum telja sérfræðingar að ekki sé æskilegt að hafa eins mikið joð í töflunum og nú er. Það nýjasta hjá mér núna er að reyna að útvega fjórðu tegundina héðan úr Breiðafirði, marínkjarna, og blanda mjöli úr beltisþara og marínkjarna saman við núverandi mjölblöndu þannig að joð-innihaldið verði minna og fæðubótarefnið þar með enn betra og heilsusamlegra að dómi næringarefnafræðinga.“

 

 

Markaðsstarfið að skila sér

 

Markaðsmál eru að jafnaði eitthvað það tímafrekasta og erfiðasta þegar nýjar vörur koma til sögunnar. Varðandi framleiðsluvörur Gullsteins hefur mikið starf verið unnið í þeim efnum á undanförnum misserum, bæði af hálfu Jóns Árna sjálfs og af hálfu samstarfsaðila Gullsteins í félaginu Ísland, hvar er þín fornaldarfrægð.

 

Jón Árni segir að það starf sé nú smátt og smátt að skila sér. Þannig sé hann búinn að semja við danskt fyrirtæki um sölu á þaramjöli handa hrossum og væntanlega fari þangað sending í lok þessarar viku. Jafnframt sé hann þessa dagana að ganga frá stórri sendingu af þaratöflum til Japans.

 

„Varðandi fæðubótartöflurnar erum við að ná fótfestu í Þýskalandi, Bandaríkjunum, Malasíu, Króatíu og Rúmeníu og víðar,“ segir hann.

 

 

Stefnt að mun fjölbreyttari framleiðslu

 

Jón Árni segir að í nýju verksmiðjunni sem fyrirhuguð er neðan við Langavatn sé stefnt að miklu fleira en vinnslu þörunga og framleiðslu á vörum úr þeim.

 

„Þar erum við að tala um framleiðslu á kryddi og stefnum að því að þurrka og mala t.d. birki og hvönn og síðan ýmsar fleiri jurtir í framhaldinu. Auk þess er fyrirtækið Ísland, hvar er þín fornaldarfrægð að markaðssetja heilsuvörur frá ýmsum öðrum hérlendis og má þar nefna sem dæmi Villimey á Tálknafirði.“

 

 

Starfsemin verði hrein viðbót á svæðinu

 

Að sögn Jóns Árna er ætlunin að fara rólega í alla hluti og vanda sig sem best.

 

„Við verðum væntanlega fimm þegar vinnslan hér við Suðurbrautina er komin í gang en reiknum með að bæta við átta manns þegar nýja verksmiðjan við Langavatn kemst í gagnið. Síðan yrði bætt við eftir því sem þörf krefði.

 

Húsnæðisskorturinn hérna er stóra vandamálið og hefur verið lengi og gerir erfitt fyrir varðandi það að fá starfsfólk. Þessari starfsemi er ætlað að vera hér hrein viðbót en ekki að hún skarist við framleiðslu Þörungaverksmiðjunnar eða taki eitt eða neitt frá henni.“

 

 

Allt kynnt rækilega áður en framkvæmdir hefjast

 

Jón Árni segir, að um leið og teikningar að verksmiðju við Langavatn séu tilbúnar og hugmyndavinnan fullunnin verði það allt kynnt vel og rækilega fyrir heimamönnum áður en framkvæmdir hefjast.

 

„Þessi undirbúningur tekur sinn tíma enda er mikið vandaverk að láta þetta falla að landslaginu og náttúrunni.“

 

 

Viljum vera í fullri sátt við bæði náttúruna og fólkið

 

Einn hreppsnefndarmaður var á móti staðarvalinu þegar vilyrði fyrir lóðinni við Langavatn var afgreitt og fleiri raddir þess efnis hafa heyrst. Því skal Jón Árni spurður:

 

- Ef þessar raddir hljóðna ekki eftir að fullunnar hugmyndir hafa verið kynntar, væruð þið þá tilbúnir að byggja á öðrum stað hér á Reykhólasvæðinu?

 

„Við myndum ekki binda okkur við þennan stað ef það yrði í andstöðu við heimamenn,“ segir hann. „Við viljum vera í fullri sátt við bæði náttúruna og fólkið. Sá sem er í forsvari fyrir nýju verksmiðjuna er mikill náttúruverndarsinni og þar vinnum við eftir ákveðnu þema. Meginatriðið er að verksmiðjan verði hér í sátt við allt og alla.“

 

 

Að selja ímynd hins fallega og hreina sveitaþorps

 

„Í markaðssetningunni erlendis leggjum við áherslu á ímynd Reykhóla, þessa litla fallega og hreina sveitaþorps á Íslandi. Þess vegna leggjum við á það megináherslu að byggingin falli vel inn í landslagið. Þessi fallega ímynd er stór þáttur í því að selja þessa náttúruvöru. Þar með er hægt að slá því föstu, að nýja verksmiðjan getur alls ekki verið við hliðina á sorpsvæðinu, en þar gætum við líka fengið lóð undir hana.

 

Ef farið yrði eitthvert annað er hætt við að vinnsluferli framleiðslunnar yrði lengra og flóknara og dýrara. Spurningin er líka hvaða tíma það myndi taka að finna aðra lóð og vinna alla undirbúningsvinnu þar og hvað það myndi kosta. Tíminn er dýr í þessum efnum. Ekki er ólíklegt að öllu myndi seinka um allt að því heilt ár ef byggt yrði á öðrum stað. Það yrði þá líka að vera fallegur staður því að við erum jafnframt að selja ímynd þessa fallega sveitaþorps og hinnar fögru náttúru hér við Breiðafjörð.

 

Lóðin við Langavatn er okkur ekkert heilög að öðru leyti en þessu.“

 

Og Jón Árni lýkur þessu samtali með spurningu:

 

„Yrði ekki alltaf einhver á móti hvaða fallegum stað sem væri fyrir verksmiðjuna?“

 

19.02.2011 Dýranammið og þaratöflurnar frá Reykhólum

12.06.2012 Umsóknir um fimm byggingalóðir samþykktar

14.06.2012 Leggst gegn mannvirkjagerð við Langavatn

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30