Tenglar

8. maí 2015 |

Verndaráætlun Breiðafjarðar 2014-2019 staðfest

Séð yfir Hvallátur og Skáleyjar fjær. Ljósm. © Mats Wibe Lund.
Séð yfir Hvallátur og Skáleyjar fjær. Ljósm. © Mats Wibe Lund.

Ráðherra hefur staðfest verndaráætlun Breiðafjarðar fyrir árin 2014-2019, en hún er stefnumörkun Breiðafjarðarnefndar, þar sem sérstöðu fjarðarins er lýst. Þá er mörkuð stefna um útfærslu stjórnunar og umsýslu vegna verndar, skipulags og framkvæmda og sýndar leiðir til að ná markmiðum um vernd náttúru- og menningarminja svæðisins.

 

Þetta kemur fram á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Þar segir einnig:

 

Í áætluninni er fjallað um sérstöðu fjarðarins hvað varðar landslag, jarðfræði, lífríki, sögu og menningarminjar. Leggur Breiðafjarðarnefnd m.a. áherslu á að viðhalda og vernda landslag og landslagsheildir, einstakar jarðmyndanir, svæði þar sem finna má fjölbreytileika lífvera eða búsvæði sjaldgæfra tegunda og ábyrgðartegundir Íslendinga. Þá er lögð áhersla á varðveislu menningarminja, s.s. uppistandandi húsa, minja sem eru í hættu og örnefna. Eins telur nefndin aðkallandi að skrá þjóðhætti á svæðinu þar sem búseta í eyjunum fer síminnkandi.

 

Nefndin nefnir þrjár leiðir sem taldar eru líklegastar til að styrkja vernd svæðisins. Í fyrsta lagi að stækka verndarsvæðið og er bent á að í dag tekur vernd Breiðafjarðar til eyja, hólma og skerja á firðinum ásamt fjörum á fastalandinu innan svæðisins en nær ekki út á þau annes sem afmarka fjörðinn. Í öðru lagi að svæðið fengi skráningu sem Ramsarsvæði en Breiðafjörður er talinn uppfylla öll þau átta viðmið Ramsarsamningsins sem fjallar um vernd votlenda, og er nægilegt að svæði uppfylli eitt þeirra til að komast á skrána. Í þriðja lagi nefnir nefndin skráningu á heimsminjaskrá Menningarmálstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO).

 

Loks er í áætluninni fjallað um þær ógnir sem steðjað geta að verndarsvæði Breiðafjarðar og möguleg viðbrögð við þeim.

 

Verndaráætlunin var unnin í samráði við heimafólk og aðra hagsmunaaðila, s.s. sveitarstjórnir sveitarfélaganna á verndarsvæðinu, vöktunar- og rannsóknarstofnanir, menntastofnanir á svæðinu, hagsmunasamtök bænda, ferðamálayfirvöld og ferðaþjónustuaðila sem og umhverfis- og auðlindaráðuneytið.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31